Fleiri fréttir

Ótti um mengunarslys í Devon

Bresk yfirvöld óttast mengunarslys við suðvesturströnd Englands eftir að flutningaskipið Napoli strandaði þar. Skipið skemmdist í óveðrinu sem gekk yfir Evrópu fyrir helgi og því var ákveðið að sigla því í strand.

Kallar tónleikana sýndarmennsku

Breski tónlistarmaðurinn Elton John söng afmælissönginn fyrir Ólaf Ólafsson, stjórnarformann Samskipa, í veislu í Reykjavík í gærkvöld en strax að henni lokinni hélt hann til Bandaríkjanna. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir þessa uppákomu bera sýndarmennsku vitni.

Varað við snjóflóðahættu

Í framhaldi af fréttum um snjóflóð í Hlíðarfjalli telur lögreglan ástæðu til að vara við því að snjóflóðahætta geti verið víðar. Víða hefur snjóað mikið til fjalla og binding við eldri snjó getur verið ótraust. Því er ástæða til að vera vel á varðbergi séu menn á ferðum við slíkar aðstæður.

Elton John keypti íslenska glerlist

Elton John keypti tvo íslenska glerlistarmuni af Ingu Elínu Kristinsdóttur í gærkvöldi skömmu áður en hann steig á svið á afmælistónleikum Ólafs Ólafssonar. Elton, sem safnar glerlistaverkum, keypti glerskúlptúr á um 100 þúsund krónur af listamanninum og glerskál. Hann virtist hinn ánægðasti með kaupin, að sögn listakonunnar. Inga Elín kom með úrval gripa á staðinn sem Elton dvaldi á meðan hann beið þess að fara á svið. Hann valdi gripina tvo og "virtist mjög ánægður," að sögn listakonunnar. "Fine, fine," sagði Elton, "This is very fine." Inga Elín er höfundur verðlaunagripsins Ístónsins sem afhentur er við Íslensku tónlistarverðlaunin ár hvert.

Valdimar Leó kominn í Frjálslynda flokkinn

Valdimar Léo Friðriksson, sem kom inn sem varaþingmaður Samfylkingar fyrir Guðmund Árna Stefánsson 2005, er genginn til liðs við þingflokk Frjálslyndra. Hann greindi frá þessu í þættinum Silfri Egils á Stöð 2 í dag. Valdimar náði ekki öruggu sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í prófkjöri flokksins í SV kjördæmi í haust.

Abbas og Mashaal hittast í dag

Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og Khaled Mashaal, leiðtoga Hamas-samtakanna ætla að hittast í Damaskus í Sýrlandi í dag. Þetta fullyrðir Saeb Erekat, náinn ráðgjafi Abbasar.

Elton söng afmælissönginn fyrir Ólaf

Breski tónlistarmaðurinn Elton John staldraði stutt við á Íslandi því strax að loknum afmælistónleikum fyrir stjórnarformann Samskipa hélt hann til Bandaríkjanna. Hann gaf sér þó tíma til að syngja afmælissönginn fyrir Ólaf Ólafsson.

Sér fyrir endann á löngum frostakafla

Nú sér loks fyrir endann á þeim samfellda frostakafla sem verið hefur á landinu síðan 5. janúar. Suðrænt loft sækir nú að landinu og fer að hlýna, fyrst vestan til, seint á morgun og á þriðjudag ætti að vera orðið frostlaust víðast hvar á láglendi. Horfur eru á að hlýindin dvelji jafnvel í einhverja daga og því ætti að verða nokkur snjóbráð.

Átökin harðna hjá forystumönnum Frjálslyndra

Átökin fara harðnandi meðal forystumanna Frjálslynda flokksins þegar tæp vika er til landsþings flokksins. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins segir Margréti Sverrisdóttur hafa niðurlægt og gert lítið úr störfum þingmanna flokksins með orðum sínum í fjölmiðlum, birtingu níðvísna á bloggvef sínum og fleiru miður skemmtilegu.

Hillary Clinton vinsælust frambjóðenda

Hillary Clinton, fyrrum forsetafrú, er með umtalsvert forskot á keppinauta sína í keppninni um útnefningu frambjóðanda demókrataflokksins til forsetakosninganna 2008. Hillary tilkynnti formlega um framboð sitt í dag. Í könnun Washington Post og ABC News, sem birt var í dag er Hillary með 41% fylgi, Barack Obama með 17% og John Edwards með 11%.

Lögreglan í Bretlandi ber kennsl á grunaðan morðingja Litvinenkos

Lögreglan í Bretlandi hefur borið kennsl á manninn sem þeir telja að hafi byrlað Alexander Litvinenko eitur, að sögn The Times. Mynd náðist af grunuðum morðingja á eftirlitsmyndavélar á Heathrow flugvelli þegar hann kom til landsins frá Hamborg 1. nóvember til að framkvæma morðið. Vinir njósnarans fyrrverandi segja að hér hafi verið á ferð leigmorðingi: Hann hafi verið ráðinn til verksins af ráðamönnum í Kreml, og svo horfið jafnskjótt og hann hafði byrlað Litvinenko banvænan skammt af polonium-210, geislavirku efni, á í tebolla á hótelherbergi í London.

Vélsleðaslys í Hveradölum

Vélsleðaslys varð á Hveradalasvæðinu eftir hádegið í dag. Sleði valt með feðgin, stúlku á tíunda ári og 35 ára faðir hennar, voru á sleðanum að sögn lögreglunnar á Selfossi, sem kom á staðinn im klukkan kortér í fjögur. Stúlkan slasaðist ekki mikið en maðurinn var meðvitundarlaus þegar að var komið. Þau voru bæði flutt á slysadeild.

Ólöf tók myndirnar

Ólöf Ósk Erlendsdóttir, sem kært hefur Guðmund Jónsson, forstöðumann Byrgisins fyrir kynferðisbrot, átti frumkvæðið að því að taka myndir af athöfnum þeirra. Segist hún hafa gert það vegna gruns um að hann hefði logið að sér um sérstöðu sambands þeirra. Og að myndatökurnar hafi verið með vitund og samþykki Guðmundar.

Aðgengi að varnarskjölum aukið

Utanríkisráðuneytið mun beita sér fyrir því að kaldastríðsnefnd þingsins fái öryggisvottun frá NATO og geti þannig óhindrað farið í gegnum öll skjöl um öryggis- og varnarmál. Í svari til nefndarinnar er bent á þá afstöðu að veita ber almenningi og fræðimönnum fullan aðgang að slíkum skjölum, svo fremi að samningar við erlend ríki hindri það ekki.

Framboðslisti Samfylkingarinnar NA-kjördæmi samþykktur

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi var samþykktur samhljóða af aukakjördæmisþingi flokksins sem haldið var á Akureyri í dag. Kosið var um þrjú efstu sætin á listanum í prófkjöri sem fram fór s.l. haust en þrjú efstu sætin hlutu í prófkjöri Kristján L. Möller, alþingismaður, Einar Már Sigurðsson, alþingismaður og Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri.

Hlakkar til að mæta Attenborough

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra er óhræddur við herferð breskra stjórnvalda gegn hvalveiðum Íslendinga, en verndarar hennar eru Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og sjónvarpsmaðurinn David Attenborough. Hann óttast aftur á móti að aðgerðir Bretanna muni ganga af Alþjóðahvalveiðiráðinu dauðu.

Elton John á Íslandi

Einkaþota breska tónlistarmannsins Eltons Johns lenti á Reykjavíkurflugvelli nú fyrir stundu. Stórstjarnan er hingað komin til að leika í afmæli Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa, sem haldið verður í frystigeymslu fyrirtækisins í kvöld.

Færð versnar á Klettshálsi á Vestfjarðavegi

Það er versnandi færð á Klettshálsi á Vestfjarðavegi þar sem er mikill skafrenningur, og má búast við að vegurinn verði ófær undir kvöld. Það er búið að opna Siglufjarðarveg sem lokaðist um stund nú síðdegis af litlu snjóflóði. Á Norðurlandi er víða ofankoma eða skafrenningur. Annars er vetrarfærð í öllum landshlutum; hálka, hálkublettir eða snjóþekja en það er helst að vegir séu auðir á Suðausturlandi.

Elton John spilar í einkaveislu í Reykjavík í kvöld

Hinn heimsfrægi tónlistarmaður Elton John verður meðal skemmtikrafta í fimmtugs-afmælisveislu Ólafs Ólafssonar, stjórnarfomanns Samskipa, sem haldin verður í Ísheimum, frystigeymslu Samskipa, við Vogabakka í Reykjavík í kvöld. Elton John stígur á svið klukkan hálf níu og spilar í klukkustund.

Hillary Clinton tilkynnir framboð sitt til forseta

Hillary Clinton öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi forsetafrú hefur tilkynnt framboð sitt til forseta Bandaríkjanna. Hún tók fyrr í dag fyrsta skrefið í áttina að framboði í forsetakosningunum 2008 þegar hún tilkynnti á vefsíðu sinni að hún hefði sett á fót nefnd sem heimilar henni að safna fé til framboðsins. Í yfirlýsingunni segist Clinton ætla að spila til sigurs því kominn sé tími til að binda enda á valdatíð Bush-stjórnarinnar. Clinton er sögð eiga allgóða möguleika á að ná kjöri og ef sú verður raunin yrði hún fyrst kvenna til að gegna þessu valdamesta embætti heims.

Fært orðið um Vestfirði

Það er búið að opna Steingrímsfjarðarheiði og allar aðalleiðir á Vestfjörðum eru því orðnar færar. Á Norðurlandi er víða ofankoma eða skafrenningur. Annars er vetrarfærð í öllum landshlutum; hálka, hálkublettir eða snjóþekja en það er helst að vegir séu auðir á Suðausturlandi.

Stjórnlaus tankbíll í fimm bíla árekstri á Akureyri

Umferðaróhapp varð á Akureyri síðdegis. Tankbíll náði ekki að stoppa og rann niður Þórunnarstræti og yfir gatnamót. Fimm bílar urðu fyrir skemmdum. Nota þurfti klippur til að ná ökumanni og farþega út úr jeppabifreið en þau voru ekki talin alvarlega slösuð. Þau voru flutt á slysadeild til skoðunar.

Nýr rektor tekur við boðkeflinu í Háskólanum í Reykjavík

Dr. Guðfinna S. Bjarnadóttir flutti síðasta ávarp sitt sem rektor Háskólans í Reykjavík og í lok útskriftarathafnar í skólanum í dag. Bjarni Ármannsson, formaður Háskólaráðs, leiddi svo fráfarandi rektor og hinn nýja rektor skólans, dr. Svöfu Grönfeldt, saman og Guðfinna afhenti Svöfu boðkefli til marks um að hún væri tekin við stjórn skólans.

Leita þarf skjala um varnarmálin í 850 hillumetrum

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra heldur áfram að birta leyniskjöl og hefur nú sent formanni kaldastríðsnefndarinnar svar við ósk hennar eftir upplýsingum um gögn í skjalasafni ráðuneytisins. Valgerður sagði fyrir helgi, að hún vildi ekki viðhafa það andrúmsloft leyndarhyggju varðandi varnarmálin, sem áður var ríkjandi.

Kýrin Blúnda setur glæsilegt Íslandsmet

Kýrin Blúnda frá Helluvaði á Rangárvöllum hefur sett nýtt og glæsilegt Íslandsmet í mjólkurafköstum einstakra kúa í landinu. Fréttablaðið Dagskráin á Selfossi sagði frá þessu fyrir helgi.

Kjörsókn er ágæt hjá Framsóknarmönnum

Um kl 15 í dag höfðu um 500 manns kosið á Selfossi í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi að sögn fréttavefsins Suðurlands.net. Klukkan 13 var heildartalan 850 yfir þá sem höfðu kosið á kjörfundi kjördæminu öllu. Alls er kosið á 26 kjörstöðum í Suðurkjördæmi. Þátttaka í prófkjörinu er heimil öllum félagsmönnum í framsóknarfélögunum í kjördæminu.

Hlakka til að stíga inná gólfið

Nú styttist í að strákarnir okkar hefji leik á Heimsmeistaramótinu í handbolta sem haldið í Þýskalandi. Vísir heyrði í Arnór Atlasyni í morgun sem hlakkaði mikið til að stíga inn á gólfið í Bördelandhalle í Magdeburg.

Ólafur Ólafsson og eiginkona hans gefa milljarð króna

Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, og eiginkona hans, Ingibjörg Kristjánsdóttir landslagsarkitekt, kynntu í morgun að þau hefðu stofnað velgerðarsjóð og lagt honum til einn milljarð króna í stofnframlag. Tekjum sjóðsins verður varið til ýmissa verkefna í þróunarlöndum og til að göfga mannlíf á Íslandi.

Olíuyfirráð í Írak að ráðast

Lagafrumvarp sem veitir ríkisstjórninni í Bagdad yfirráð yfir olíulindum Íraks er nánast tilbúið að því er fram kemur í stórblaðinu New York Times í dag. Mikil pólitísk átök hafa verið um yfirráð yfir þessum þriðju mestu olíulindum heims.

Elsta kona heims látin

Elsta kona í heimi, Julie Winnefred Bertrand, andaðist í gær á elliheimili í Montreal í Kanada 115 ára að aldri. Hún fæddist 16. september 1891.

Tilraunirnar vekja ugg

Tilraunir Kínverja til að skjóta niður gervihnött með stýriflaug hefur litla ánægju vakið á Vesturlöndum. Gervihnötturinn sem var grandað var gamall veðurathugnarhnöttur en hann var í svipaðri hæð og bandarískir njósnahnettir og því virðist tilrauninni beint gegn þeim.

Íbúðarhús brann í Þorlákshöfn

Íbúðarhús brann til grunna í Þorlákshöfn snemma í morgun. Þar brann annar helmingurinn af parhúsi við Norðurbyggð og var hann mannlaus. Í hinum enda hússins var móðir og tvör börn hennar. Þau komust klakklaust út úr íbúðinni þegar eldurinn blossaði upp.

Blæjustúlkur á forsíðu

Múslimastúlkur í Bandaríkjunum hafa nú fengið glanstímarit þar sem blæjuburður er skilyrði fyrir því að komast á forsíðuna. Muslim Girl Magazine miðar, eins og nafnið gefur til kynna, á múslimskar táningsstúlkur sem markhóp. Reynslusögurnar í tímaritinu lúta flestar að því hvernig er að vera múslimi í Bandaríkjunum í dag.

Egypsk kona látin úr fuglaflensu

Egypsk kona lést í dag úr fuglaflensu eftir sex daga sjúkrahúsvist. Warda Eid Ahmed var 27 ára en hún var talin vera með lungnabólgu þegar hún var flutt á landssjúkrahúsið í Kaíró. Warda er ellefti Egyptinn sem deyr úr fuglaflensu. 19 hafa veikst af sjúkdómnum síðan í febrúar á síðasta ári en 8 hafa náð sér aftur.

Mega bera kross um hálsinn

Starfsmönnum British Airways er nú aftur heimilt að bera kross eða önnur trúartákn í keðju um hálsinn utan klæða. Áður máttu krossar ekki sjást, jafnvel þó að höfuðblæjur múslimakvenna og túrbanar hafi verið leyfilegir.

Rekin úr Big brother vegna rasisma

Breska sjónvarpsstjarnan Jade Goody, sem sökuð hefur verið um kynþáttahatur og einelti, var send heim úr breska raunveruleikasjónvarpsþættinum Big brother í kvöld. Legið hefur við milliríkjadeilum vegna áreitni hennar og rifrilda við indverska kvikmyndaleikkonu í þættinum.

Enn myrkur í Bláfjöllum en fólk laust úr lyftum

Flestir eru nú komnir heim úr Bláfjöllum og starfsmenn að klára að aka gil og brekkur í Bláfjöllum til að athuga hvort ekki hafi allir skíðamenn komist niður úr brekkunum eftir að rafmagn fór af svæðinu fyrr í kvöld. Viðgerð stendur enn yfir á rafmagnslínu sem slitnaði um sjö-leytið í kvöld þannig að rafmagn fór af svæðinu.a

Viðurkenndu að mistök hefðu átt sér stað gagnvart Byrginu

Fyrir fjórum árum flutti félagsmálaráðuneytið fjárframlag Byrgisins á nýja kennitölu, þar sem líknarfélagið var gjaldþrota. Ríkisendurskoðun gaf leyfi fyrir þessu að uppfylltum ströngum skilyrðum sem ekki var fylgt eftir.

Bað stjórn Byrgisins um að krefjast lögreglurannsóknar

Ólafur Ólafsson, læknir Byrgisins og fyrrverandi landlæknir, bað stjórn meðferðarheimilisins um að krefjast lögreglurannsóknar vegna meintrar misnotkunar forstöðumanns á skjólstæðingum sínum. Hann segir að lögmaður Byrgisins hafi kært innan við sólarhring eftir að Kompásþáttur um Byrgið var sýndur viku fyrir jól.

Minnismerkið um óþekktu vændiskonuna

Rauðljósahverfið í Amsterdam mun bæta fjöður í hatt sinn á næstunni: til stendur að reisa þar styttu til heiðurs vændiskonum um víða veröld. Styttan verður líkast til afhjúpuð í lok mars.

66 manns saknað eftir ferjuslys á Indlandi

Óttast er um 66 manns á Suður-Indlandi eftir að ferja sökk á leið sinni yfir stórfljót. Fólkið var flest á leið heim frá fjölmennri pílagrímshátíð við ána Ganges. Kafarar og þyrlur hafa hjálpað til við leitina í dag en leit hefur verið frestað vegna myrkurs. Áfram verður leitað á morgun.

Fólk fast í lyftu í Bláfjöllum

Björgunarsveitarfólk á höfuðborgarsvæðinu hefur verið ræst út til þess að bjarga fólki úr skíðalyftum í Bláfjöllum. Allt svæðið er rafmagnslaust, fólk er fast í lyftum og annað fólk fast í brekkunum þar sem erfiðlega gengur að skíða niður í kolniðamyrkri. Talsvert af börnum var einnig á skíðaæfingu, enda einn af fyrstu dögunum sem svæðið er opið.

Sjálfhjálparhvötin sterkust

Engin hvöt er sterkari í dýrum jarðarinnar en að reyna að halda sér á lífi hvað sem það kostar. Þrjú nýleg dæmi af jafnmörgum ferfætlingum sýna okkur það.

Svartur blettur á lýðræðissögu Íslands

Formaður Vinstri grænna segir það blett á lýðræðissögu Íslands að leynilegir viðaukar hafi verið gerðir við varnarsamning Bandaríkjanna og Íslands. Ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu segir það rangt mat að einn þeirra geri Bandaríkjamönnum mögulegt að taka yfir flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli án samráðs við Íslendinga.

Ritstjóri skotinn til bana

Talið er að öfgasinnaður þjóðernissinni hafi verið að verki þegar ritstjóri tyrknesks dagblaðs var skotinn til bana fyrir utan skrifstofur blaðsins í Istanbúl í dag. Ritstjórinn var á síðasta ári dæmdur fyrir að sýna tyrknesku þjóðinni vanvirðingu með skrifum sínum um fjöldamorð Tyrkja á Armenum í lok heimsstyrjaldarinnar fyrri.

Sjá næstu 50 fréttir