Innlent

Héldu áfram för sinni eftir bílveltu

Í umdæmi lögreglunnar á Selfossi voru þrír kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina og 52 fyrir hraðakstur. Auk þessa varð bílvelta snemma á sunnudagsmorgun á Biskupstungnabraut skammt neðan við Geysi í Haukadal. Þrennt var í bifreiðinni, tveir ungir karlar og unglingsstúlka. Fólkið var á leið frá Gullfossi að Laugarvatni þegar ökumaður missti stjórn á bílnum og hann fór út af veginum. Talið er að bíllinn hafi farið eina og hálfa veltu.

Ökumaður bílsins er grunaður um ölvun við akstur. Fólkið komst út úr bílnum og velti henni á hjólin og hélt svo áfram för sinni. Þegar þau komu á Laugarvatn var ökumaðurinn þó svo máttfarinn að hann þurfti stuðning í hús. Þau voru flutt á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Ökumaðurinn hafði rifbeinsbrotnað og hlotið höfuðáverka en farþegarnir voru lítið slasaðir. Þremenningarnir þykja hafa sloppið vel miðað við að enginn þeirra var í bílbelti. Ökumaðurinn er sviptur ökuréttindum sínum ævilangt og bíður þess að sitja af sér níu mánaða fangelsisdóm meðal annars fyrir ítrekuð umferðarlagabrot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×