Fleiri fréttir

Telur ekki að samstaða muni aukast

Útspil Norðuráls á Suðurnesjum verður ekki til þess að samstaða aukist meðal Norðlendinga um staðsetningu stóriðju, að mati framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Norðlendingar virðast samt sem áður ákveðnir í að komast aftur fram úr Suðurnesjamönnum í samkeppninni um næsta álver.

Fékk fyrstur gervihjarta á Íslandi

Gervihjarta var sett í sjúkling í fyrsta sinn á Íslandi fyrir tíu dögum. Örn Elísson fékk gervihjarta til að komast í gegnum hjartaaðgerð sem hann hefði annars ekki lifað af.

Lengst í fríi á Norðurlöndum

Íslenskir þingmenn fá lengst sumarfrí allra þingmanna Norðurlandanna. Finnar fá styst frí, rúmar sex vikur, en Íslendingar rúmar tuttugu.

Vinna að bóluefni gegn reykingum

Tilraunir lyfjafyrirtækja til þess að finna upp bóluefni gegn reykingum, eru sagðar hafa skilað góðum árangri. Niðurstöður voru kynntar í dag.

Óttast að hátíðin sé að hverfa

Biskup Ísland óttast að hátíðin sé að hverfa úr lífi fólks og að allir dagar verði eins. Sjálfur var hann við hvítasunnumessu í Hallgrímskirkju í dag til að halda upp á anda hins góða og bjarta.

Strandavegur mjög illa farinn

Vegurinn frá Hólmavík á Ströndum að Brú í Hrútafirði er illa á sig kominn. Auknir stórflutningar um veginn hafa leikið hann illa og nú horfa Strandamenn til vegar um Arnkötludal sem myndi stytta leiðina á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um 40 kílómetra.

Frekari mótmæli í Andijan

Þúsundir manna hafa á ný safnast saman í borginni Andijan í Úsbekistan þar sem tugir manna féllu í blóðugum bardögum í gær. Erlendum fréttamönnum hefur verið vísað frá borginni. Fólkið var að mótmæla einræðisstjórn Islams Karimovs forseta sem hefur stjórnað landinu frá 1989.

Erill hjá lögreglunni í Reykjavík

Erilsamt var hjá Lögreglunni í Reykjavík í nótt en alls voru átta ökumenn stöðvaðir grunaðir um ölvunarakstur og fengu þrír þeirra að gista í fangageymslum lögreglunnar í nótt. Skýrsla af þeim verður tekin nú í morgunsárið. Samkvæmt lögreglunni í Reykjavík var ölvun talsverð í miðbæ Reykjavíkur í nótt en lögreglan segir þó að nóttin hafi gengið stórslysalaust fyrir sig.

Nokkuð annasamt í Kópavogi

Talsverður erill var einnig hjá lögreglunni í Kópavogi í nótt en einn ökumaður var stöðvaður grunaður um ölvun við akstur á Reykjanesbrautinni um klukkan eitt í nótt. Hann var þó látinn laus eftir að blóðsýni hafði verið tekið úr honum. Þá stöðvaði Selfosslögreglan ökumann vegna gruns um ölvun um klukkan átta í gærkvöld og segir lögreglan að viðkomandi hafi virst talsvert ölvaður en hafi þó fengið að fara heim eftir rannsókn.

Níu Kúrdar drepnir í Tyrklandi

Tyrkneskar hersveitir felldu í nótt níu kúrdíska uppreisnarmenn, þar af tvær konur, í austurhluta landsins. Tíu þúsund tyrkneskir hermenn taka þátt í sókn að herbúðum Kúrda á þessum slóðum. Aðeins eru nokkrir dagar síðan Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að réttarhöldin yfir Kúrdaleiðtoganum Abdullah Öcalan hefðu verið ósanngjörn.

Abbas til Washington í lok maí

Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, mun eiga fund með George Bush, forseta Bandaríkjanna, í Washington hinn 26. þessa mánaðar. Bush bauð Abbas til Washington strax eftir að hann var kjörinn forseti 10. janúar síðastliðinn.

Listahátíð hefst í dag

Listahátíð í Reykjavík hefst í dag og stendur hún í þrjár vikur. Þótt hátíðin sé kennd við höfuðborgina fer hún fram á tíu öðrum stöðum á landinu: Kópavogi, Hafnarfirði, Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Eiðum, Vestmannaeyjum, Skálholti, Hveragerði og undir Eyjafjöllum. Hátíðin í ár er helguð alþjóðlegri samtímamyndlist.

Öflugur skjálfti á Súmötru

Snarpur jarðskjálfti skók eyjuna Súmötru í Indónesíu snemma í morgun og olli hann töluverðri skelfingu meðal íbúa eyjarinnar. Skjálftinn mældist 6,9 á Richter á átti upptök sín 50 kílómetra norðvestur af borginni Padang á vesturhluta eyjarinnar. Engar fregnir hafa borist af manntjóni eða skemmdum á mannvirkjum en hræddir íbúar víða á eyjunni flýðu upp á hálendi minnugir fljóðbylgjunnar annan dag jóla í fyrra sem kostaði á annað hundrað manns lífið í Indónesíu.

Fréttamönnum vísað úr landi

Þúsundir manna hafa á ný safnast saman í borginni Andijan í Úsbeskistan þar sem tugir manna féllu í blóðugum bardögum í gær. Erlendum fréttamönnum hefur verið vísað frá borginni.

Bílsprengjuárás á írakska lögreglu

Að minnsta kosti fjórir létust í árás á írakska lögreglu í miðborg Bagdad í dag. Sjálfsmorðsárásarmaður ók bíl sínum að lögreglumönnum á eftirlitsferð í miðborginni og sprengdi hann í loft upp með fyrrgreindum afleiðingum. Þá bárust fregnir af því að níu bandarískir hermenn hefðu fallið í stórskotaárás á uppreisnarmenn í Anbar-héraði, nærri landamærum Sýrlands, sem staðið hefur í viku.

Hrossaskíturinn dugði við Lyngmóa

Hrossaskítur dugði til að fæla unglinga frá því að hópast á túnblett við Lyngmóa í Garðabæ í gærkvöldi. Þess í stað kom hópur ungmenna saman við Löngufit og varð úr bæði ölvun og ólæti, raunar svo mikil að lögregla handtók þrjá pilta á svæðinu. Gistu þeir fangageymslu í nótt.

Viðrar vel á fjallgöngugarpa

Fjallgöngugarpar á leið á Öræfajökul fá hið besta veður á leið sinni upp á hæsta tind landsins. Um tvö hundruð manna hópur lagði af stað um fjögurleytið í nótt og er væntalega kominn á Hvannadalshnjúk. Hið besta veður er nú í Öræfasveit. Þar var 14 stiga hiti og bjartviðri og höfðu menn sýn á tindinn úr Freysnesi í morgun.

Ekki sáttur við niðurstöðu nefndar

Formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, Björgólfur Jóhannsson, er ekki sáttur við þá niðurstöðu svokallaðrar hágengisnefndar um að ekki sé ástæða til að grípa til sértækra aðgerða vegna hás gengis krónunnar. Hágengisnefnd viðurkennir í skýrslu, sem kynnt var í gær, að afkoma og rekstrarskilyrði sjávarútvegsins séu óviðunandi en samkvæmt niðurstöðum megi sjá merki um jákvæða þróun mitt í öllum erfiðleikunum.

Fundu fjöldagröf í Kosovo

Réttarmeinafræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna telja sig hafa fundið fjöldagröf í bænum Malisevo í Kosovo-héraði. Líkin í gröfinni eru talin vera af Serbum sem saknað hefur verið síðan 1998 þegar Kosovo-Albanar og Serbar bárust á banaspjót í héraðinu. Nú þegar hafa sex lík fundist en réttarmeinafræðingarnir reikna með að finna fleiri á næstunni.

Skellir skuldinni á öfgamenn

Islam Karimov, forseti Úsbekistans, segir íslamska öfgamenn bera ábyrgð á mótmælunum og blóðbaðinu í borginni Andijan í gær. Þá skutu hermenn á mótmælendur sem safnast höfðu saman á götum borgarinnar til þess að mótmæla því að 23 kaupsýslumenn, sem sakaðir eru um að styðja við bakið á íslömskum uppreisnarmönnum, hefðu verið fangelsaðir.

Gunnar fær engan stuðning eigin varaþingmanns

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir 1. varaþingmaður á lista Frjálslynda flokksins í Suðvestur kjördæmis Gunnars Örlygssonar ætlar ekki að fylgja honum í Sjálfstæðisflokkinn. Gunnar náði kjöri í þessu kjördæmi sem uppbótarþingmaður Frjálslynda flokksins í Alþingiskosningunum þann 10. maí árið 2003. F-listinn fékk 6,75% prósent gildra atkvæða þar.

Fjölmenni á Hvannadalshnjúki

Um tvöhundruð manna hópur fjallgöngugarpa var væntanlegur á Hvannadalshnjúk, hæsta tind Íslands, nú á þriðja tímanum. Langflestir eru vegum Ferðafélags Íslands, um eitt hundrað manns, undir fararstjórn Haraldar Arnar Ólafssonar en smærri hópar ganga á Öræfajökul á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna, Útivistar og Öræfaferða.

Fundað á Kóreuskaganum

Norður- og Suður-Kóreumenn hafa ákveðið að funda í næstu viku, réttum tíu mánuðum eftir að þeir ræddu síðast saman. Til stendur að ræða samskipti landanna auk þess sem Suður-Kóreumenn munu freista þess að fá nágranna sína aftur að samningaborðinu vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.

Stöðvaði slagsmál með táragasi

Lögreglan í Hafnarfirði þurfti í gærkvöld að beita táragasi til þess að stöðva slagsmál við Löngumýri í Garðabæ. Tilkynnt var um ólæti við götuna um miðnætti og greint frá því að tíu til fimmtán piltar væru að slást þar auk þess sem bílum hefði verið ekið óvarlega í götunni. Þegar lögrega kom á staðinn var talsverður í æsingur í þeim sem þar voru og flugust menn á.

Meiddist illa í hlaupahjólsslysi

Þrettán ára strákur slasaðist alvarlega þegar hann féll á hlaupahjóli sínu í fyrradag á Hátúni í Keflavík. Drengurinn fékk stýrið í kviðinn með þeim afleiðingum að miltað sprakk. Samkvæmt fréttavef <em>Víkurfrétta</em> var hann fluttur á bráðamóttöku Landspítalans og var þaðan á gjörgæsludeild. Eftir aðhlynningu lækna var hann síðan fluttur á Barnaspítala Hringsins.

Segir 500 manns látna í Andijan

Allt að fimm hundruð manns eru talin hafa látist í gær þegar hersveitir í Úsbekistan skutu á þúsundir mótmælenda og tókust á við uppreisnarmenn í Andijan. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir yfirmanni úsbesku mannréttindasamtakanna Appeal sem staddur er í borginni. Sá segist hafa rætt við vitni að atburðinum.

Borgarísjaki inni á Eyjafirði

Borgarísjaki er kominn inn á Eyjafjörð. Er hann nú út af Ólafsfjarðarmúla og sagður afar tignarlegur. Íbúi á Hauganesi, Sigríður Óskarsdóttir, sem gerði sér sérstaka ferð út í Múlann til að skoða jakann, segir að hann standi eins og Hallgrímskirkjuturn beint upp úr hafinu.

Samið um afvopnun

Fulltrúar hers og uppreisnarmanna á Fílabeinsströndinni komust að samkomulagi í dag um að deilendur í landinu myndu hefja afvopnun 27. júní og að henni yrði lokið 10. ágúst. Samkomulagið kemur í kjölfar friðarsamnings sem stríðandi fylkingar í Afríkuríkinu undirrituðu í Suður-Afríku í síðasta mánuði.

Vilja rannsókn á vanhelgun Kórans

Alþjóðleg samtök múslíma í Sádi-Arabíu hafa farið fram á það við bandarísk stjórnvöld að þau rannsaki hvort Kóraninn, hið helga rit múslíma, hafi verið vanhelgaður í fangabúðunum við Guantanamo-flóa. Samtökin hafa ritað Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bréf þessa efnis þar sem þau lýsa yfir undrun og ótta vegna frétta af málinu og segja að þær gefi öfgamönnum úr röðum múslíma ástæðu til að beita ofbeldi.

Átök eftir leik í Danmörku

Lögregla í Kaupmannahöfn þurfti að skjóta viðvörunarskotum og beita fyrir sig lögregluhundum þegar áhangendur mankedónsks handknattleiksliðs trylltust eftir tap liðsins fyrir danska liðinu Slagelse í dag. Greint er frá því á vefsíðu <em>Politiken</em> að áhangendurnir hafi orðið ósáttir við niðurstöðu leiksins því þeir slógust hver við annan.

Háttsettur embættismaður myrtur

Lögregla í Írak greindi frá því í dag að byssumenn hefðu drepið háttsettan mann innan utanríkisráðuneytis landsins í Bagdad. Jassim al-Muhammadawy var skotinn fyrir utan heimili sitt í Vestur-Bagdad en auk þess særðust þrír í tilræðinu. Árásum á embættismenn, her og lögreglu hefur fjölgað að undanförnu í Írak, en frá því að ný ríkisstjórn í var mynduð í landinu fyrir um tveimur vikum hafa yfir 400 manns látist í ýmiss konar árásum.

Þúsundir flýja Andijan

Þúsundir Úsbeka hafa safnast saman við landamæri Úsbekistans og Kirgisistans í kjölfar átaka í borginni Andijan í gær. Að sögn yfirvalda í Kirgisistan hafa um 500 manns komist yfir landamærin, þar á meðal fangar sem frelsaðir voru úr fangelsi í borginni í gær, en landamærunum var lokað í gær vegna frétta af átökunum.

Herinn hafi orðið að skjóta

Sjónarvottar og fulltrúi mannréttindasamtaka í Úsbekistan segja að um fimm hundruð manns hafi fallið í skotárás hersins í borginni Andian, í gær. Forseti landsins segir að herinn hafi orðið að skjóta á mannfjöldann til að bæla niður uppreisn.

Flugskattur til hjálpar fátækum

Evrópusambandið veltir nú fyrir sér hvernig hægt sé að leggja sérstakan skatt á flugfarþega sem yrði notaður til aðstoðar í fátækari ríkjum heimsins.

Fann lítið tungl við Satúrnus

Geimfarið Cassini hefur fundið agnarlítið tungl sem er falið á milli hringja Satúrnusar og er þar á braut um plánetuna.

Vegi lokað vegna alvarlegs slyss

Mjög alvarlegt umferðarslys varð skammt fyrir sunnan bæinn Syðri-Bægisá í Hörgárbyggð um klukkan hálfsex í dag. Tveir bílar lentu í harkalegum árekstri en þrjár manneskjur voru í bílunum. Lögregla lokaði hringveginum í Öxnadal og má búast við að hann verði lokaður í um klukkustund í viðbót.

Mannfjöldamet á Öræfajökli?

Mannfjöldamet var að öllum líkindum sett á Öræfajökli í dag en tæplega 200 manns komust þá á Hvannadalshjnúk, hæsta tind Íslands. Fjallgöngumennirnir hófu gönguna klukkan fjögur í nótt frá Sandfelli í Öræfasveit. Langflestir göngumanna voru á vegum Ferðafélags Íslands, um eitt hundrað manns, undir fararstjórn Haraldar Arnar Ólafssonar pólfara.

Framkvæmdir gætu hafist 2007

Fulltrúar Norðuráls á Grundartanga, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í gærkvöldi samkomulag um að kanna möguleika á rekstri álvers í Helguvík. Framkvæmdir gætu hafist árið 2007.

Áfram unnið að álveri fyrir norðan

Stjórnvöld munu áfram vinna að því að álver rísi á Norðurlandi, segir Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra. Hún vonast til þess að samkomulagið sem undirritað var í gær þrýsti á Norðlendinga að sýna nauðsynlega samstöðu.

Óánægja með sýknudóm yfir Lettum

Óánægja er innan Alþýðusambandsins með niðurstöðu Héraðsdóms Austurlands sem sýknaði í gær tvo Letta af ákæru fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga en þeir störfuðu hér á landi án þess að hafa atvinnuleyfi.

Listahátíð líka utan höfuðborgar

Listahátíð í Reykjavík var sett í dag með pompi og prakt. Hátíðin verður þó ekki bundin við höfuðborgina því í ár er hún helguð alþjóðlegri samtímamyndlist og verður á þriðja tug sýninga allt frá Dagsbrún undir Eyjafjöllum til Eiða á Austurlandi.

Stefna áfram að eigin vatnsveitu

Formaður bæjarráðs Kópavogs fagnar vilja Orkuveitu Reykjavíkur til lækkunar á vatnsverði til Kópavogsbæjar. Hann segir bæinn engu að síður stefna að eigin vatnsveitu á næsta ári.

Selma heillar alla

Það er alveg ljóst að Selma Björnsdóttir átti daginn í blaðamannaherberginu í Kænugarði þar sem hún fór hreinlega á kostum. Þar tók hún lagið auk þess sem geislandi framkoma hennar bræddi alla viðstadda. Hún tók þrjú lög þar á meðal söng hún All out of luck, þar sem hún tók viðlagið á þýsku og þá söng hún gamalt króatískt eurovisionlag.

Upplausn í Úsbekistan

Upplausnarástand ríkir nú í borgini Andijan í fyrrverandi Sóvétlýðveldinu Úsbekistan. Tíu lögreglumenn voru í morgun teknir í gíslingu og minnst níu hafa verið drepnir og nokkur hús eru alelda. Í nótt gerðu uppreisnarmenn úr röðum herskárra múslíma áhlaup á fangelsi í borginni og talið er að þeim hafi tekist að ná þúsundum fanga lausum.

Sjá næstu 50 fréttir