Erlent

Upplausn í Úsbekistan

Upplausnarástand ríkir nú í borgini Andijan í fyrrverandi Sóvétlýðveldinu Úsbekistan. Tíu lögreglumenn voru í morgun teknir í gíslingu og minnst níu hafa verið drepnir og nokkur hús eru alelda. Í nótt gerðu uppreisnarmenn úr röðum herskárra múslíma áhlaup á fangelsi í borginni og talið er að þeim hafi tekist að ná þúsundum fanga lausum. Flestir fanganna sátu inni fyrir að aðhyllast íslamska öfgatrú og um nokkurt skeið hefur hópur manna krafist þess að mennirnir verði leystir úr haldi. Forseti landsins lagði núna á áttunda tímanum af stað til borgarinnar og herlið hefur verið kallað á vettvang. Í morgun hafði hópur fólks safnast saman á götum úti til þess að mótmæla og að sögn fréttastofu BBC skutu leyniskyttur á mótmælendur utan við ráðhúsið í borginni. Mótmælendunum tókst hins vegar að draga þrjár leyniskyttur niður af þökum og er ekki vitað um afdrif þeirra. Fréttir bárust svo af því að hermönnum hefði tekist að umkringja hóp mótmælenda og virðist þeim vera að takast að ná stjórn á ástandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×