Erlent

Vinna að bóluefni gegn reykingum

Tilraunir lyfjafyrirtækja til þess að finna upp bóluefni gegn reykingum, eru sagðar hafa skilað góðum árangri. Niðurstöður voru kynntar í dag. Að minnsta kosti þrjú lyfjafyrirtæki gera nú tilraunir með bóluefni gegn reykingum og hafa gert langtímatilraunir á sjálfboðaliðum sem vildu hætta að reykja. Hjá breska lyfjafyrirtækinu Xenova var hluti hópsins sprautaður með bóluefni en aðrir fengu bara vítamín í sprautuna. Átta prósent þeirra sem fengu vítamínsprautu hættu að reykja en 38 prósent þeirra sem fengu bóluefnið hættu. Þetta þykir lofa góðu. David Oxlade, forstjóri Xenova, telur að bólefnið verði þróað með þeim hætti að það verði í fyrstu gefið fullorðnum sem hafi ákveðið að hætta að reykja. Ef fyrirtækið sjái merki þess að efnið sé öruggt til langframa og virki vel sé hann viss um að það verði reynt í því skyni að koma í veg fyrir að fólk ánetjist níkótíni. Fólkið sem tilraunirnar voru gerðar á reykti mismunandi mikið, allt frá 10 sígarettum á dag upp í 75.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×