Sport

Þrjú gull og sjö ís­lensk verð­laun á Norður­landa­mótinu í MMA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Geirsson, Norðurlandameistari frá í fyrra, varði titilinn sinn í ár og fagnaði líka vel.
Logi Geirsson, Norðurlandameistari frá í fyrra, varði titilinn sinn í ár og fagnaði líka vel. Mjölnir

Allir sex Íslendingarnir sem tóku þátt í Norðurlandamótinu í blönduðum bardagaíþróttum, MMA, komu heim með verðlaun. Alls komu Íslendingarnir heim með þrenn gullverðlaun, þrenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.

Íslensku keppendurnir koma allir úr Mjölni en það voru þeir Þorleifur Feykir Veigarsson (U23 ofurveltivigt), Steinar Bergsson (U23 millivigt), Viktor Gunnarsson (fjaðurvigt), Anton Hrafnhildarson (ofurveltivigt), Júlíus Bernsdorf (þungavigt) og síðast en ekki síst Logi Geirsson sem keppti í U23 ofurmillivigt og fékk jafnframt undanþágu til að keppa í léttþungavigt fullorðinna, þar sem hann keppti bæði upp fyrir sig í aldri og þyngd en Logi varð 21 árs núna í janúar.

Gunnar Nelson yfirþjálfari Mjölnis fylgdi þeim út ásamt Jóni Viðari Arnþórssyni sem einnig var í horninu þeirra.

Logi Geirsson þaggaði niður í höllinni með glæsilegum sigri á heimamanninum Gustaf Sandelin í léttþungavigt fullorðinna.Mjölnir

Varði titilinn sinn

Logi Geirsson, Norðurlandameistari frá í fyrra, varði titilinn sinn í ár og gerði gott betur þegar hann þaggaði niður í höllinni með glæsilegum sigri á heimamanninum Gustaf Sandelin í léttþungavigt fullorðinna.

Íslendingurinn ungi vann báða úrslitabardagana í fyrstu lotu, þann fyrri (U23) gegn Norðmanninum Tsvetomir Stoyanov með tæknilegu rothöggi og hinn seinni með uppgjafarhengingartaki gegn heimamanninum Gustaf Sandelin eins og áður sagði. 

Logi er því tvöfaldur Norðurlandameistari, bæði í U23 ofurmillivigt og í léttþungavigt fullorðinna. Það er glæsilegt afrek hjá Loga að taka gull í tveimur flokkum með þessum hætti.

Gull eftir rothögg

Steinar Bergsson fór beint í úrslit í U23 millivigtinni þar sem hann sigraði heimamanninn Viggo Axelsson í fyrstu lotu með tæknilegu rothöggi. Þetta var frábær frammistaða og þriðja gullið til Íslendinga á þessu móti.

Júlíus Bernsdorf varð að sætta sig við silfrið að þessu sinni.Mjölnir

Júlíus Bernsdorf sigraði heimamanninn Mark Kurji á dómaraúrskurði í undanúrslitum þungavigtarinnar og mætti síðan öðrum Svía, Jiffa Kundo, í úrslitunum. Þar var Júlíus með nokkra yfirburði í fyrstu lotunni en lenti í hengingartaki í lok hennar eftir misheppnaða fellu og varð að játa sig sigraðan og gera sér silfurverðlaunin að góðu.

Einn dómari taldi Viktor hafa unnið

Viktor Gunnarsson mætti Norðmanninum Eric Nordin í undanúrslitum fjaðurvigtarinnar og sigraði með uppgjafarhengingartaki í þriðju lotu. Hann mætti svo Finnanum Walter Björkroth í úrslitunum. 

Bardaginn var gríðarlega jafn og endaði í klofnum dómaraúrskurði þar sem einn dómari taldi Viktor hafa unnið en tveir gáfu Finnanum sigur. Viktor fékk því silfrið en tæpara hefði það ekki geta verið og Íslendingurinn óheppinn að ná ekki í gullið þarna.

Þorleifur Feykir Veigarsson sigraði heimamanninn Markus Uysal sannfærandi í undanúrslitum U23 ofurveltivigtarinnar á samróma dómaraúrskurði, en þess má geta að þetta var frumraun Þorleifs Feykis í MMA. 

Hann mætti síðan hinum finnska Arlex Blomqvist en þar varð Íslendingurinn að játa sig sigraðan á dómaraúrskurði sem var, líkt og í fyrri bardaganum, réttmætur dómur. Þriðja silfur Íslands í höfn.

Allir Íslendingarnir á verðlaunapall

Anton Hrafnhildarson mætti Svíanum Simon Junkergård í undanúrslitum ofurveltivigtarinnar. Anton sigraði sennilega fyrstu lotuna en lenti í hengingartaki þegar hann reyndi fellu í annarri lotu og varð að játa sig sigraðan. 

ann mætti síðan Norðmanninum Robin Kristiansen í baráttunni um þriðja sætið. Sá bardagi stóð allar þrjár loturnar og endaði í klofnum dómaraúrskurði sem nú féll okkar megin. Bronsverðlaun til Antons og þar með komust allir Íslendingarnir á verðlaunapall.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×