Sport

Jón Erik skíðaði sig inn á Ólympíu­leikana

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jón Erik Sigurðsson er á leiðinni á Vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina.
Jón Erik Sigurðsson er á leiðinni á Vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina. SKÍ

Jón Erik Sigurðsson er efstur íslenskra karla á nýjasta stigalista alþjóða skíðasambandsins og tryggði sér þar með sæti á Vetrarólympíuleikunum á Ítalíu í næsta mánuði.

Þrír íslenskir keppendur höfðu nú þegar tryggt sér sæti á ÓL en spennan var gríðarleg í karlaflokki alpagreina, þar sem þrír skíðakappar kepptu um eitt laust sæti. Þeir voru allir að keppa á mótum í síðustu viku og um helgina sem skáru úr um hvort þeir kæmust inn. 

Á endanum varð Jón Erik Sigurðsson efstur á listanum í alpagreinum með 1578 stig, aðeins 54 stigum meira en Gauti Guðmundsson sem skoraði 1524 stig. Bjarni Þór Hauksson fylgdi þeim fast eftir en endaði með 1338 stig.

Ísland fær boðsmiða á Vetrarólympíuleikana í gegnum kvótakerfið og samkvæmt reglum Skíðasambands Íslands verður Jón Erik því tilnefndur til þátttöku en formleg tilkynning mun berast eftir fund stjórnar SKÍ. 

Fær Hólmfríður Dóra grænt ljós á morgun? 

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir varð efst, enda sú eina á listanum, í kvennaflokki í alpagreinum og verður því einnig tilnefnd. Hún er þó að glíma við meiðsli eftir að hafa brotið bein í sköflungi undir lok síðasta árs.

Dagur og Kristrún byrjuð að undirbúa sig 

Dagur Benediktsson og Kristrún Guðnadóttir munu svo keppa fyrir hönd Íslands í skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum en þau voru, líkt og Hólmfríður, þau einu á listanum.

Dagur er kominn til Ítalíu að undirbúa sig og Kristún er í æfingabúðum í Noregi.

Vetrarólympíuleikarnir í Mílanó og Cortina hefjast þann 6. febrúar og þeim lýkur þann 22. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×