Upp­gjörið: Stjarnan - Kefla­vík 116-98 | Kefl­víkingar kafsigldir í Garða­bæ

Siggeir Ævarsson skrifar
Orri Gunnarsson lét til sín taka á báðum endum vallarsins
Orri Gunnarsson lét til sín taka á báðum endum vallarsins Vísir/Vilhelm

Keflvíkingar heimsóttu Garðabæinn í kvöld og mættu þar heimamönnum í Stjörnunni sem höfðu unnið fimm leiki í röð fyrir viðureign kvöldsins. 

Keflvíkingar endurheimtu Remy Martin á dögunum en hann snéri sig í bikarnum og var ekki með í kvöld og munaði um minna.

Gestirnir byrjuðu leikinn vægast sagt hörmulega en staðan breyttist úr 2-2 í 20-3 á örfáum mínútum í byrjun og munurinn fór upp í 25 stig þegar verst lét í 1. leikhluta. Það gekk nákvæmlega ekkert upp hjá gestunum sem köstuðu boltunum ítrekað í hendurnar á Stjörnumönnum sem skoruðu nánast að vild og höfðu lítið fyrir því.

Luka Gasic hóf leikinn í kvöld af miklum krafti og endaði með tólf stigVísir/Vilhelm

Staðan 36-15 eftir fyrsta leikhlutann en gestirnir mættu ákveðnir til leiks eftir stutta pásu og byrjuðu 2. leikhluta á 14-3 áhlaupi. Baldur Þór sá sig tilneyddan til að taka leikhlé enda munurinn kominn niður í tíu stig, 39-29. Keflvíkingar voru að spila mun betur á báðum endum vallarins en það var skammgóður vermir.

Ég er nokkuð viss um að þetta sé ekki lögleg varnarstaðaVísir/Vilhelm

Heimamenn stigu aftur á bensíngjöfina og lokuðu leikhlutanum með miklum krafti. Orri Gunnarsson setti tvo þrista í röð og svo fékk Hilmar Smári vinalegt flaut frá dómurunum eftir þrist sem kostaði Keflvíkinga einnig tæknivillu. Þeir fóru svo illa af ráði sínu í lokasókn hálfleiksins, sóknarvilla dæmd á Egor Koulechov sem var hans fjórða í hálfleiknum. Seth LeDay lokaði hálfleiknum með flautukörfu spjaldið ofan í og munurinn nítján stig, 69-50.

Seth LeDay var öflugur í kvöld. Það er ekki draumaverkefni Keflvíkinga að dekka öfluga menn í teignumVísir/Vilhelm

Stjörnumenn héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og gáfu aldrei þumlung eftir. Allur vindur úr Keflvíkingum sem virtust tapa trú á verkefninu nokkuð fljótt og hélst munurinn í kringum 20 stig allt til loka. Gestirnir náðu öðru hvoru að ýta muninum aðeins niður en heimamenn svöruðu alltaf og sigurinn í raun aldrei í hættu eftir því sem á leið. Sjötti sigur Stjörnumanna í röð staðreynd og lokatölur í Garðabænum 116-98.

Atvik leiksins

Þegar Orri setti þrist úr vonlausu færi spjaldið ofan í um miðjan þriðja leikhluta var nokkuð ljóst hvernig þessi leikur myndi fara. Lýsandi atvik fyrir það hvernig flest gekk upp hjá Stjörnumönnum í kvöld. 

Þeir settu einnig tvær flautukörfur, þetta var bara eitt af þessum kvöldum.

Halldór Garðar sækir á körfuna, Orri Gunnarsson til varnar.Vísir/Vilhelm

Stjörnur og skúrkar

Áðurnefndur Orri skoraði 30 stig í kvöld og setti átta þrista úr aðeins tólf tilraunum. Frábær sóknarframmistaða hjá honum.

Keflvíkingum gekk illa að hemja Seth LeDay í teignum, sem skoraði 23 stig, tók tólf fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Þá átti Hilmar Smári fína innkomu af bekknum í sínum fyrsta deildarleik og skilaði 18 stigum í hús.

Hjá Keflavík var Egor Koulechov stigahæstur með 23 stig en hann lenti í villuvandræðum þegar hann fékk sína fjórðu villu undir blálokin í fyrri hálfleik. Hilmar Pétursson kom næstur með 19 stig og bætti við sjö stoðsendingum.

Hilmar Pétursson var kraftmikill á köflum og endaði stoðsendingahæstur KeflvíkingaVísir/Vilhelm

Dómarar

Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Birgir Örn Hjörvarsson dæmdu leikinn í kvöld sem var fast leikinn. Sumum fannst þeir flauta of mikið en ég held að þeir hefðu jafnvel mátt flauta oftar ef út í það er farið.

Á móti kemur fannst mér línan nokkuð skýr og leikurinn flaut að mestu ágætlega undir þeirra stjórn.

Stemming og umgjörð

Það var fámennt í ÞG Verk höllinni rétt fyrir leik en svo streymdu menn og konur í salinn og úr varð hin fínasta mæting og ágæt stemming. Tuðsveitin undir blaðamannastúkunni var líka á sínum stað, allt eins og það á að vera í Garðabænum.

Viðtöl

Daníel Guðni: „Þessi fyrsti leikhluti fór bara með okkur“

Daníel Guðni fer yfir málin með sínum mönnum í kvöldVísir/Vilhelm

Það er klassískur frasi að tala um að lið lendi í holu sem er erfitt að vinna sig upp úr en 25 stiga hola í fyrsta leikhluta er sennilega með þeim óyfirstíganlegri.

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, tók undir það og sagði að hans menn hefðu í raun aldrei náð að vinna fyrsta leikhlutann upp.

„Það er alvöru hola og það er vissulega mjög krefjandi verkefni. Ég er mjög ósáttur við hvernig við mættum til leiks. Vorum mjög flatir og þurftum að brenna strax leikhlé. Þeir voru mjög þéttir og spiluðu hart á okkur. Töpum ellefu boltum í fyrsta leikhluta sem að meistaraflokkslið á ekki að gera í körfubolta. Þá komust þeir upp á lagið og fengum mikið af auðveldum körfum upp úr því.“

Þrátt fyrir þunga byrjun þá gáfust Keflvíkingar upp og byrjuðu annan leikhluta á 14-3 áhlaupi. Þá tók Stjarnan leikhlé og komst rakleiðis inn í leikinn aftur.

„Ég þarf aðeins að skoða það aftur, hvernig það þróaðist. Við náum þessu niður í einhver átta stig. Mér fannst leikurinn vera í eins miklu jafnvægi og hann gat verið í síðustu þrjá leikhluta. Við vorum alveg að ná að sækja á þá og stoppa þá, sérstaklega á hálfum velli og náðum aðeins að breyta taktinum fyrir okkur. En þessi fyrsti leikhluti fór bara með okkur og það er bara miður.“

Aðspurður hvort þetta væri leikur sem hægt væri að taka eitthvað jákvætt út úr eða hvort það væri bara best að gleyma honum strax sá Daníel jákvæða hluti í annars erfiðu tapi.

„Ég tek alveg jákvæða hluti úr þessu. Það er mjög auðvelt að leggjast niður og láta alveg niðurlægja sig þegar maður er kominn í svona djúpa holu. Við sýndum mikla þrautseigju að reyna að koma til baka og minnka þetta niður en það fór vissulega í orka í það og þeir náðu muninum aftur upp í hálfleik, sem var mjög súrt. En við náðum samt að sýna seigluna og ná að halda þessari innbyrðis viðureign. Við verðum bara að mæta sterkir í næsta leik og sigra hann því hver leikur telur og við þurfum að ná að halda í við toppliðin.

Baldur Þór: „Er ekki bara normal að spila á átta mönnum í körfubolta?“

Baldur Þór var ánægður með fyrsta leikhlutann en ekki mikið meira en þaðVísir/Vilhelm

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, talaði um það fyrir leik að varnarleikurinn yrði að smella. Hann gerði það heldur betur í byrjun leiks en Baldur var þó ekkert sérstaklega sáttur með varnarleikinn heilt yfir.

„Frábær í fyrsta leikhluta. Það sjokkeraði þá svolítið og þeir voru lengi að aðlaga sig en svo var varnarleikurinn ekkert sérstakur eftir það!“

„Það er náttúrulega fullt af hlutum sem við getum verið þéttari á varnarlega. Auðvitað mikill hraði í leiknum en það er ekki planið að fá á sig 98 stig.“

Stjarnan er nú komin með ansi breiðan og óárennilegan hóp og ekki ólíklegt að það byrji tveir erlendir atvinnumenn á bekknum í næstu leikjum þegar Hilmar Smári verður kominn á fullt með liðinu en hann byrjaði á bekknum í kvöld.

Baldur var spurður hvort það væri mögulega stærsta verkefnið hans núna að finna nægan spilatíma fyrir alla og halda öllum ánægðum með sitt hlutverk. Hann hafði þó ekki miklar áhyggjur af því.

„Er ekki bara normal að spila á átta mönnum í körfubolta? Ég held að það sé bara normal breidd, ef þú ert með færri en átta menn þá er það orðið sjö menn og það er helvíti lítil breidd. Auðvitað þurfa menn að skilja sín hlutverk og mér sýnist allavega á sóknarvellinum að menn séu alveg að skilja það.“

„Auðvitað er þetta bara vinna sem að leikmenn og þjálfarateymi þurfa að sitja í. Það eru allir með eitt markmið, að reyna að vinna alla leikina. Það eru allskonar hindranir sem koma og það er bara hlutverk allra sem koma að þessu, hvort sem það eru þjálfarar eða leikmenn að finna út úr þeim hindrunum sem koma upp og fara í gegnum þær.“

Baldur var mjög sáttur með innkomu Hilmars Smára.

„Bara frábærlega, hann náttúrulega veit alveg hvað við erum að gera og spilaði með okkur í fyrra. Bara geggjað að þjálfa hann. Frábær leikmaður sem á bara eftir að verða betri.“

Stjörnumenn eru taplausir í síðustu sex deildarleikjum en Baldur var ekki tilbúin að kvitta undir að það væri ekkert því til fyrirstöðu að liðið færi taplaust í gegnum restina af deildarkeppninni.

„Ég ætla bara að fara í næsta leik gegn ÍR og vinna hann. Taka það góða úr þessum leik og reyna að laga það sem var ekki í lagi og bara áfram með lífið!“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira