Upp­gjörið: Þór Þ. - KR 123-126 | Endur­koma, fram­lenging og dramatík í Þor­láks­höfn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
KR-ingar unnu dramatískan endurkomusigur í kvöld.
KR-ingar unnu dramatískan endurkomusigur í kvöld. vísir/Diego

KR vann hádramatískan þriggja sigur í framlengdum leik gegn Þór Þorlákshöfn í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld, 123-126.

Strax frá upphafi var ljóst að það yrði nóg af stigum sett á töfluna í leik kvöldsins. Þórsarar byrjuðu leikinn betur og náðu níu stiga forskoti um miðjan 1. leikhluta, en KR-ingar skoruðu næstu átta stig og minnkuðu muninn snarlega.

Gestirnir náðu svo forystunni áður en 1. leikhluta lauk og leiddu með einu stigi að honum loknum, staðan 30-31.

Liðin skiptust svo alls átta sinnum á að hafa forystuna í 2. leikhluta og ljóst að það þyrsti eitthvað mikið til að ná að skilja liðin að. Heimamenn snarhitnuðu hins vegar undir lok fyrri hálfleiks og settu 12 stig í síðustu fjórum sóknum sínum fyrir hlé.

Gestirnir voru þó aldrei langt undan og munurinn á liðunum var aðeins sjö stig þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja í stöðunni 65-58.

Í síðari hálfleik virtust heimamenn svo ætla að sigla sigrinum heim. Þórsarar héldu forskoti sínu vel út 3. leikhluta og byggðu upp virkilega gott forskot í 4. leikhluta.

Mestur varð munurinn 19 stig þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka.

Þá vöknuðu KR-ingar hins vegar heldur betur til lífsins. Gestirnir settu 14 stig í röð og bjuggu óvænt til alvöru leik.

Það var svo Kenneth Jamar Doucet sem fékk tækifæri til að tryggja gestunum dramatískan sigur, en nýtti aðeins eitt af tveimur vítum þegar ein og hálf sekúnda var eftir af leiknum. Það dugði þó til að jafna metin og því var gripið til framlengingar.

Í framlengingunni voru KR-ingar svo nánast allan tíman um það bil hálfu skrefi framar en Þórsarar. Jacoby Ross gerði hvað hann gat til að halda Þórsliðinu á lífi, en að lokum voru það gestirnir í KR sem fögnuðu dramatískum þriggja stiga sigri, 123-126.

Atvik leiksins

Endurkoma KR í 4. leikhluta var hreint út sagt ótrúleg. Undirritaður sagði frá því að nú gætu Þórsarar farið að huga að því að sigla sigrinum heim þegar munurinn var orðinn 19 stig, en þá kviknaði einhver ótrúlegur neisti innan KR-liðsins, sem fylgdi þeim alveg þar til lokaflautið gall.

Stjörnur og skúrkar

Toms Elvis Leimanis og Kenneth Jamar Doucet skiluðu heldur betur sínu í kvöld. Doucet var nokkuð hægur af stað, en vann sig vel inn í leikinn þegar leið á og skoraði 27 stig fyrir KR. Leimanis var hins vegar stigahæsti leikmaður liðsins með 29 stig.

Í liði Þórs var Jacoby Ross atkvæðamestur með 31 stig og tíu stoðsendingar. Djordje Dzeletovic skoraði 29 stig og Rafail Lanaras 30.

Hins vegar verður að setja spurningamerki við spilamennsku Þórs undir lok leiks. Að vera 19 stigum yfir þegar rúmar fimm mínútur eru til leiksloka og enda á því að tapa er eitthvað sem Lárus Jónsson, þjálfari, þarf að minna menn á að er ekki í lagi.

Dómarar

Þeir Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson og Sófus Máni Bender þurftu að hafa fyrir hlutunum í kvöld. Í leik sem þessum myndast oft mikill hiti, sem varð raunin í kvöld.

Bæði lið og stuðningsmenn þeirra voru oft og tíðum ósáttir við ýmsa dóma og ábyggilega er hægt að taka nokkra út fyrir sviga og skoða betur. Hins vegar er líklega ekki hægt að segja að það hafi hallað á annað liðið í kvöld.

Stemning og umgjörð

Áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn í Icelandic Glagial höllinni í kvöld og stemningin var eftir því. Stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og fyrir nokkuð hlutlausan blaðamann var góð stemning í höllinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira