Sport

Venus verður sú elsta í sögunni og Serena gæti snúið aftur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Systurnar mættust í úrslitaleik opna ástralska árið 2017.
Systurnar mættust í úrslitaleik opna ástralska árið 2017. Scott Barbour/Getty Images

Venus Williams hefur fengið boðsmiða á Opna ástralska meistaramótið í tennis og verður elsti keppandinn frá upphafi til að taka þátt. Yngri systir hennar Serena gæti líka mögulega snúið aftur á tennisvöllinn á árinu.

Venus er orðin 45 ára gömul og hefur lítið keppt síðustu ár en sneri aftur á stórmót á síðasta ári þegar hún tók þátt í Opna bandaríska.

Hún hefur sjö sinnum unnið stórmót en aldrei í Ástralíu, systir hennar Serena vann hana í úrslitaleikjum árin 2003 og 2017.

Þær spiluðu fyrst á þessu móti árið 1998 þegar Venus vann Serenu í annarri umferðinni en tapaði svo í átta manna úrslitum gegn Lindsey Davenport.

Serena Williams er sigursælasta tenniskona sögunnar en hefur ekki spilað síðan árið 2022. Spaðinn fór þó aldrei formlega á hilluna heldur sagðist hún vera „að þróast í aðra átt.“

Hún hefur ekki gefið það opinberlega út að hún ætli sér að snúa aftur á tennisvöllinn en í síðasta mánuði var hún skráð aftur á lista lyfjaeftirlitsins yfir virka keppendur.

Það yrði þó ekki fyrr en í fyrsta lagi í apríl sem hún gæti tekið þátt á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×