Sport

Dönsk táningastelpa að slá í gegn á EM í sundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martine Damborg fagnar EM-gulli sínu með danska fánann í kvöld.
Martine Damborg fagnar EM-gulli sínu með danska fánann í kvöld. Getty/Andrea Masini

Danska sundkonan Martine Damborg vann í kvöld gullverðlaun á Evrópumótinu í sundi í annað sinn á nokkrum dögum.

Það eru ekki nema tveir dagar síðan hin átján ára Damborg kom öllum á óvart og vann gull í 50 metra flugsundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Póllandi.

Danski táningurinn vann gull í 100 metra flugsundi í kvöld þegar hún kom í mark á 55,52 sekúndeum sem var Evrópumet unglinga. Hún er alsæl með árangurinn.

„Þetta er mjög yfirþyrmandi. Síðustu tveir sólarhringar, sérstaklega í gær [þegar hún varð síðust í úrslitum í 100 metra fjórsundi], hafa verið mjög tilfinningaþrungnir fyrir mig. Það náði hámarki í gær þegar þetta varð aðeins of mikið í úrslitunum,“ sagði Damborg við DR.

„Þetta er sannarlega andlegur sigur,“ sagði Damborg.

Táningurinn var í sjötta sæti eftir fyrsta snúning í úrslitasundinu í kvöld.

Eftir 50 metra hafði hún synt sig upp um eitt sæti og eftir 75 metra hafði hún komist upp í þriðja sætið.

Á síðustu 25 metrunum tók hún ótrúlegan endasprett og í æsispennandi keppni tók danska stjarnan gullið, þremur hundraðshlutum úr sekúndu á undan keppandanum í öðru sæti sem var Tessa Giele frá Hollandi. Svíin Louise Hansson varð í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×