Sport

Fær þrjár milljónir á dag næstu sex árin fyrir að gera ekkert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brian Kelly mætir til leiks þegar hann var enn þjálfari LSU skólaliðsins.
Brian Kelly mætir til leiks þegar hann var enn þjálfari LSU skólaliðsins. Getty/Gus Stark

Brian Kelly var látinn taka pokann sinn hjá Louisiana State University eftir helgina en poki þjálfarans er langt frá því að vera tómur.

Kelly hafði þjálfað lið LSU-skólans í amerískum fótbolta frá árinu 2022 og skrifaði þá undir afar hagstæðan samning. Það sem meira er, samningurinn var til tíu ára. 

Það þurfti mikið til svo hann hætti hjá Notre Dame-skólanum og færði sig suður til Louisiana State og samningurinn var Kelly afar hagstæður.

Stjórn skólans ákvað hins vegar að reka Kelly eftir 49–25 tap á móti Texas A&M um helgina. Liðið hafði unnið fimm af átta leikjum sínum á tímabilinu og alls 34 af 48 leikjum í þjálfaratíð Kelly.

Þetta var risastór ákvörðun hjá skólanum ekki síst þar sem hann var á samningi til ársins 2022 og átti inni 54 milljónir dollara eða meira en sex milljarða íslenskra króna.

Þetta þýðir að til þess að losna við Kelly úr þjálfarastólnum þarf Louisiana State University að borga honum 26 þúsund Bandaríkjadali á hverjum degi næstu sex árin.

Það gera meira en 3,2 milljónir íslenskra króna á hverjum degi eða meira en tvö þúsund krónur á hverja mínútu og 136 þúsund krónur á hverjum klukktíma. Fyrir að gera ekki neitt.

Það má búast við því að hinn 64 ára gamli Kelly hafi það ágætt þrátt fyrir brottreksturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×