Fótbolti

Stífla Álvarez brast í dramatískum sigri Atlético

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Julian Alvarez verður ekki gagnrýndur fyrir færanýtinguna í þessum leik, líkt og hann hefur lent í upp á síðkastið.
Julian Alvarez verður ekki gagnrýndur fyrir færanýtinguna í þessum leik, líkt og hann hefur lent í upp á síðkastið. Diego Souto/Getty Images

Julian Álvarez skoraði þrennu og tryggði Atlético Madrid 3-2 sigur á lokamínútunum gegn Rayo Vallecano í sjöttu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Álvarez komst á blað í fyrstu umferð deildarinnar en hafði ekki skorað í síðustu fjórum leikjum og fengið harða gagnrýni fyrir sína færanýtingu.

Hann þaggaði niður í þeirri gagnrýni eftir aðeins fimmtán mínútur í leik kvöldsins þegar hann tók forystuna fyrir Atlético eftir sendingu Marcos Llorente.

Óvænt náðu gestirnir hins vegar að jafna í uppbótartíma fyrri hálfleiks og á 77. mínútu komust þeir yfir.

Álvarez hafði þá farið illa með eitt dauðafæri en átti eftir að stíga aftur upp. Hann skoraði jöfnunarmark aðeins þremur mínútum eftir að Atlético lenti undir og á 88. mínútu tryggði hann 3-2 sigur með sínu þriðja marki í leiknum.

Ákveðið áhyggjuefni er hins vegar fyrir lærisveina Diego Simeone að þó þeir hafi unnið þennan leik þá hafa þeir tapað niður forystu í fimm af fyrstu sex deildarleikjunum. Hinum fjórum náðu þeir ekki að snúa við eins og í kvöld.

Atlético er því aðeins í níunda sæti deildarinnar eftir sex umferðir.

Real Sociedad, lið Orra Steins Óskarssonar, vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu á sama tíma í kvöld. 1-0 gegn Mallorca þökk sé Mikel Oyarzabal. Orri var ekki með vegna meiðsla sem hann hefur glímt við í tæpan mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×