Fótbolti

Diljá mætir Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diljá Ýr Zomers fær að spila á móti Manchester United í Meistaradeildinni.
Diljá Ýr Zomers fær að spila á móti Manchester United í Meistaradeildinni. Getty/Manuel Winterberger

Íslenska landsliðskonan Diljá Ýr Zomers og félagar hennar í Brann fengu að vita það í dag hverjir verða mótherja liðsins í umspili um sæti í Meistaradeildinni.

Brann dróst á móti Manchester United og hafði því ekki alveg heppnina með sér í drættinum. Með United spilar hin norska Elisabeth Terland sem skoraði fjögur mörk í tveimur leikjum liðsins í síðustu umferð.

Sædís Rún Heiðarsdóttir og félagar í Vålerenga drógust á móti Ferencváros frá Ungverjalandi.

Amanda Andradóttir og félagar í Twente lentu á móti GKS Katowice frá Póllandi. Hollenska liðið sló Breiðablik út í gær.

Liðin spila heima og að heiman í byrjun september og sigurvegari einvígsins kemst i Meistaradeildina.

Níu félög þurfa ekki að fara í gegnum umspilið heldur eru örugg með sæti í riðlakeppninni. Það eru Arsenal (England), Lyon (Frakkland), Paris Saint-Germain (Frakkland), Bayern München (Þýskaland), Wolfsburg (Þýskaland), Barcelona (Spánn), Chelsea (England), Benfica (Portúgal) og Juventus (Ítalía).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×