Upp­gjör: ÍA - Valur 2-2 | Skaginn náði í stig með ó­trú­legu marki

Árni Jóhannsson skrifar
Bjarni Mark krýnir hér Patrick Pedersen
Bjarni Mark krýnir hér Patrick Pedersen Vísir / Diego

Patrick Pedersen sló markametið sem beðið hefur verið eftir í allt sumar en það fellur skuggi á það í kvöld. ÍA náði í jafntefli með ótrúlegu marki á fjórðu mínútu uppbótartíma. Leikurinn endaði 2-2 og Valur er með tveggja stiga forskot á toppnum en Skaginn nálgast örugga svæðið.

Það var mikil spenna í loftinu fyrir leik vitandi það að markametið myndi að öllum líkindum falla í kvöld. Patrick Pedersen var kominn með 131 mark í efstu deild á Íslandi og átti bara eftir að bæta það. Valsmenn byrjuðu talsvert betur í leiknum í kvöld og fengu auk þess mikla hjálp frá Skagamönnum sem buðu þeim upp í dans trekk í trekk og var Patrick búinn að komast í tvö mjög góð færi þegar þrjár mínútur voru búnar af leiknum. 

Markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar

Patrick fékk síðan enn eitt færið á 16. mínútu og þá lét hann ekki bjóða sér það tvisvar. Jónatan Ingi Jónsson fékk tækifæri til að hlaupa á vörn Skagamanna og var nóg pláss fyrir hann til að athafna sig. Það var einnig nóg pláss fyrir Patrick að koma sér fyrir í vítateig ÍA, leggja fyrir sig boltann og renna honum undir Árna Marínó í markinu. 132. mark Danans orðið staðreynd og hann orðinn markahæstur í sögu efstu deildar.Skagamenn vöknuðu ekki við þetta högg heldur héldu þeir áfram að bjóða Val upp á góðar stöður á sínum vallarhelming og með ólíkindum að fleiri Valsmörk hafi ekki litið dagisins ljós.

Patrick Pedersen við það að bæta markametið.Vísir / Diego
Boltinn að rúlla yfir línuna og markametið tryggt.Vísir / Diego

Valur hélt þó alltaf áfram að þjarma að heimamönnum og koma sér í góðar stöður. Johannes Vall braut svo á Jónatani Inga innan vítateigs á 39. mínútu. Þetta var klárt víti og Patrick Pedersen fékk boltann í hendurnar, skiljanlega. Pedersen gerði engin mistök og sendi boltann upp í vinkilinn og þar með kominn með 133 mörk í efstu deild á Íslandi.

Bjarni Mark að krýna Patrick.Vísir / Diego

Eftir það leið hálfleikurinn undir lok og heimamenn söfnuðu nokkrum gulum spjöldum. Voru orðnir mjög pirraðir. Staðan 0-2 í hálfleik og ekkert sem benti til þess að ÍA myndi ná í eitthvað út úr þessum leik.

Skrípamörk telja alveg jafn mikið

Valsmenn byrjuðu af svipuðum krafti og þeir byrjuðu leikinn og Skagamenn voru alveg sömu klaufarnir og í fyrr hálfleik, bjóðandi hættunni heim. Haukur Andri Haraldsson kom inn á í hálfleik fyrir heimamenn og honum fylgdi aukinn kraftur. Þegar fimm mínútur ca. voru liðnar af síðar hálfleik náðu heimamenn að klóra í bakkann.

Johannes Vall klóraði í bakkann.Vísir / Diego

Andi Hoti tapaði boltanum hægra megin og fyrirgjöfin sem kom upp úr því fór á Johannes Vall sem átti skot í stöng, í Frederik Schram og þaðan í andlitið á Bjarna Mark Antonsyni sem reyndi að bjarga því sem bjargað varð og í markið. Skaginn kominn inn í leikinn og þeir fóru að velgja Valsmönnum undir uggum sem virtust ætla að verja fenginn hlut.

ÍA náði þó ekki að skapa mikinn usla í sínum sóknum og fóru oft illa með góðar stöður. Valsmenn gerðu heiðarlega tilraun til að sigla þessu heim en reyndu þó undir lokin að ná í eitt mark í viðbót til að gulltryggja þetta. Þeim tókst það ekki en leið samt ekki illa með leikinn eins og hann hafði þróast.

Ómar Björn jafnaði metin í blálokin.Vísir / Diego

Ógæfan dundi hinsvegar yfir á 94. mínútu í uppbótartíma. Jón Gísli Eyland Gíslason reyndi þá fyrirgjöf sem fór í bakið á varnarmanni Vals og spýttist þaðan til Ómars Björns Stefánssonar sem fékk boltann af fítonskrafti í öxlina. Þaðan fór boltinn í rosalegan boga, yfir Frederik í markinu og í hliðarnetið innan við stöngina. Jöfnunarmark og allt ærðist á Elkem vellinum. Valsmenn voru þrumu lostnir.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að vinna en Árni Marínó varði t.a.m. vel þegar Aron Jó. komst í gott skotfæri.

Aron Jó. mundar skotfótinn.Vísir / Diego

Skömmu síðar var flautað til leiksloka í stöðunni 2-2 og Valsmenn bættu einu stigi við forskot sitt sem er það sama og þeir höfðu fyrir umferðina. Skagamenn náðu ekki að koma sér upp fyrir KR en eru einu stigi nær örygginu sem 10. sæti færir liðum.

Fredrik Schram gat lítið gert í mörkunum kannski en stóð sig þegar á þurfti að halda.Vísir / Diego

Atvik leiksins

Í þessum leik verður að velja tvö atvik. Markamet Patrick Pedersens, sem var glæsilegt atvik en jöfnunarmark Ómars skyggir þó á það. Ef Skaginn hefði ekki jafnað hefði eini söguþráður leiksins verið jöfnunarmarkið.

ÍA - Valur Besta deild karla Sumar 2025Vísir / Diego

Umgjörð og stemmning

Vel mætt á Skipaskagann í kvöld af báðum fylkginum. Umgjörð Skagamanna upp á 10 og góð stemmning sem skapaðist.

Stjörnur og skúrkar

Ómar Björn Stefánsson er stjarna heimamanna í kvöld. Hann bjargaði stigi fyrir ÍA sem gæti talið helling í lok leiktíðar. Aðrir leikmenn ÍA voru í brasi í kvöld fannst mér.

Valsmenn verða að teljast skúrkar í kvöld. Það var ekkert sem benti til þess að ÍA myndi ná í nokkurn skapaðan hlut en það gerðist samt. Valsmenn hefður þurft að vera búnir að klára leikinn.

Dómarinn

Gunnar Freyr Róbertsson og hans menn gerðu mjög vel í kvöld að mati undirritaðs. Hann leyfði leiknum að fljóta mjög vel og gaf spjöldin þegar á þurfti að halda. 

Viðtöl:

Lárus Orri: Fótboltamenn eru til að spila fótbolta

ÍA - Valur Besta deild karla Sumar 2025Vísir / Diego

Þjálfari Skagamanna, Lárus Orri Sigurðsson, hafði blendnar tilfinningar til leiksins og jafnteflisins sem hans menn náðu í í kvöld.

„Þetta eru blendnar tilfinningar. Ég er mjög ánægður með viðbrögð minna manna í seinni hálfleik sem var mjög góður. Við stigum upp og gerðum það sem við ætluðum að gera frá byrjun en þetta er að gerast of oft hjá okkur. Við erum að byrja illa og erum mun betri í seinni hálfleik og þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða hjá okkur. Við þurfum að mæta klárir í leikinn.“

Valsmenn voru búnir að skapa tvö dauðafæri strax í byrjun og skoruðu eftir 16 mínútur, fyrri hálfleikurinn var ekki beysinn.

„Við vorum að ná í þá. Taktíkin okkar gekk upp og við vorum að ná í svæði sem við ætluðum að sækja í. Við vorum bara hikandi og ekki nógu ákveðnir í návígjum sem Valsmenn voru að vinna út á vellinum. Þetta snerist svo í seinni hálfleik og menn voru bara hreinskilnir í hálfleik og sögðu það sem þeim fannst og þeir gerðu það heldur betur. Þetta er fyrsta jafnteflið okkar í sumar og við tökum þessu stigi fagnandi. Við þurfum í sameiningu að horfa á fyrri hálfleikinn og sjá hvað þarf að laga þar. Þessi leikur sýnir það svart á hvítu að þessi deild er gjörsamlega galin. Það geta allir unnið alla.“

Er eitthvað ryð í hans mönnum eða voru mistök gerð í uppleggi leiksins?

„Það voru ekki mistök í upplegginu, við lögðum leikinn fínt upp eins og ég sagði vorum við að sækja í þau svæði sem við ætluðum að sækja í. Við erum hinsvegar ekki búnir að spila leik í rúmar tvær vikur en það er engin afsökun. Deildin er bara svona og við vissum að þetta yrði svona. Fyrir leikinn sagði ég að ég væri mikið frekar til í að spila á þriggja daga fresti en að hanga hérna í tvær vikur og gera ekki neitt.“

Lárus vorkennir þá ekki Völsurum sem mögulega geta kennt þreytu um í lokin? 

„Sko“, sagði Láru hlæjandi og hélt áfram: „Fótboltamenn eru til að spila fótbolta. Þegar það er vertíð á sjónum þá fara menn bara út og fiska. Menn sitja ekki bara heima. Fótboltamenn vilja spila fótbolta og ef menn spila á þriggja til fimm daga fresti þá er það alveg frábært og það er hægt að gera það í tvo til þrjá mánuði. Ef þú getur það ekki þá verður þú að finna þér eitthvað annað að gera.“

Framhaldið hjá Skagamönnum er strembið en hvernig lítur það út frá bæjardyrum Lárusar.

„Það lítur bara vel út. Við þurfum að gera upp þennan leik en förum síðan í Hafnarfjörðinn en FH eru mjög sterkir heim að sækja. Áfram gakk.“

Túfa: Lærum af þessu

ÍA - Valur Besta deild karla Sumar 2025Vísir / Diego

Srdjan Tufegdzic, Túfa, gat verið svekktur með niðurstöðuna í leiknum í kvöld þegar Valur gerði jafntefli við ÍA á útivelli.

„Mjög svekkjandi. Eftir að hafa verið 0-2 yfir og með leikinn í okkar höndum þar sem við hefðum getað skorað fleiri mörk. Leikurinn spilaðist ekki vel í seinni hálfleik hjá okkur. Við opnuðumst alltof mikið og það hentaði kannski Skagamönnum og þeir náðu að koma boltanum oft inn í teig en þeir náðu því aldrei í fyrri hálfleik. Fengum fyrsta markið á okkur og það hleypti trú í þá og við vitum að Skagamenn gefast aldrei upp. Samt mikill lærdómur hjá okkur um það hvernig við eigum að spila síðustu mínútur leiksins og gátum lokað leiknum.“

Það var ekkert sem benti til þess að ÍA myndi ná í eitthvað út úr leiknum og Valur hefði getað verið mikið meira yfir.

„Það er rétt orðað. Fótboltinn er þannig að leikurinn er 97 mínútur og allt getur gerst. Okkar plan var að koma inn í seinni hálfleikinn eins og við gerðum í fyrri og ná næsta marki. Það tókst ekki. Fyrsta markið þeirra kemur ekki upp úr neinu og það er svekkjandi að hafa verið með tveggja marka forskot og kasta þessu frá okkur. En, þetta er bara fótboltinn og við þurfum að taka þetta á kassann.“

Er þá ekki sérstaklega svekkjandi að tapa niðu fimm leikja sigurhrinu?

„Jú og sérstaklega þar sem við spiluðum vel í fyrri hálfleik. Vorum aggressívir, baráttuglaðir og vorum að skapa okkur fullt af færum. Það var ekkert sem benti til þess að leikurinn færi jafntefli. Það er ýmislegt sem við getum lært af.“

Það er búin að vera mikil keyrsla á liðinu, með Evrópuleikjum, leikmenn hafa meiðst og það er búið að selja leikmenn. Er hópurinn orðinn fámennur?

„Nei nei, við söknum nokkurra leikmanna í dag. Það er rétt. Ég held að þetta sjáist ekki í spilamennsku liðsins. Það var frekar lítil atvik þar sem við þurfum að gera betur. Sérstaklega þegar lítið er eftir af leiknum til að sigla sigrinum heim. Þar er hægt að læra, bæði sem einstaklingar og sem lið. Vonandi eru leikmenn að koma til baka og maður vill hafa alla heila en það er ekki langt í leikmennina sem eru meiddir.“

Er Valur eitthvað að leita á markaðnum og bárust fréttir í dag að Afturelding hafi hafnað tilboði í Hrannar Snæ leikmann sinn?

„Það er ekkert sem ég get sagt þér núna. Við erum samt alltaf að horfa í kringum okkur. Við höfum misst tvo leikmenn sem hafa verið í hlutverki hjá okkur en það er ekkert sem hafði áhrif á leikinn í dag. Við vorum með þetta í okkar höndum og köstum þessu frá okkur. Við lærum bara af þessu og verðum klárir á sunnudaginn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira