Körfubolti

Þrír verða heima meðan lands­liðið fer til Ítalíu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Frank Aron Booker fer ekki til Ítalíu.
Frank Aron Booker fer ekki til Ítalíu. Vísir/Hulda Margrét

14 leikmenn íslenska karlalandsliðsins í körfubolta fara með liðinu til Ítalíu um helgina að taka þátt í æfingamóti fyrir komandi Evrópumót. Þrír í 17 manna æfingahópi Íslands verða því eftir á Íslandi.

Þeir Frank Aron Booker, Ragnar Nathanaelson og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fara ekki út með liðinu til Ítalíu. Þetta staðfestir Baldur Þór Ragnarsson, aðstoðarþjálfari landsliðsins í samtali við íþróttadeild.

Þó þeir haldi ekki út með liðinu verði þeir þó til taks þegar landsliðið kemur aftur hingað heim til æfinga eftir helgina.

Ekki er því alls ljóst að þeir þrír verði ekki í lokahópi Íslands og mun æfingahópurinn halda fyrri stærð við heimkomuna frá Ítalíu.

Landsliðsþjálfararnir þurfa svo að skera hópinn niður í tólf manns fyrir EM. Því þarf að taka tvo til viðbótar úr núverandi hópi.

Þeir Bjarni Guðmann Jónsson, Friðrik Leó Curtis, Mario Matasovic, Ólafur Ólafsson og Sigurður Pétursson höfðu þegar dottið út úr 22 manna æfingahópi Íslands og æfðu ekki með liðinu í vikunni.

Fimm leikir fram að móti

1.-4. ágúst fer liðið til Ítalíu og tekur þátt í móti ásamt heimamönnum, Pólverjum og Senegölum. Ísland mætir Ítalíu í fyrri leik ferðarinnar og fer það eftir úrslitum úr leik Pólverja og Senegala hvoru liðinu Ísland mætir í seinni leiknum.

Eftir það kemur liðið aftur hingað heim til æfinga. 12. ágúst fer liðið aftur út og mætir liðum Portúgals og Svíþjóðar áður en það flýgur heim í annað sinn 16. ágúst.

Þann 22. ágúst mæta strákarnir okkar svo Litáen í lokaleiknum fyrir EuroBasket og verður leikið í Litáen. Þaðan verður svo farið beint til Katowice í Póllandi á EuroBasket en þangað verður liðið að vera mætt 25. ágúst.

Fyrsti leikur á EM er við Ísrael þann 28. ágúst.

Þeir 14 leikmenn sem fara til Ítalíu:

  • Almar Atlason – USA – 0 landsleikir
  • Elvar Már Friðriksson – Anwil Wloclawek, Pólland – 74
  • Haukur Helgi Pálsson – Álftanes – 75
  • Hilmar Smári Henningsson – Stjarnan – 20
  • Jaka Brodnik – Keflavík – 0
  • Jón Axel Guðmundsson – Burgos, Spáni – 35
  • Kári Jónsson – Valur – 35
  • Kristinn Pálsson – Valur – 37
  • Martin Hermannsson – Alba Berlin, Þýskaland – 77
  • Orri Gunnarsson – Stjarnan – 11
  • Styrmir Snær Þrastarson – Zamora, Spánn – 20
  • Sigtryggur Arnar Björnsson – Tindastóll – 37
  • Tryggvi Hlinason – Bilbao, Spánn – 69
  • Ægir Þór Steinarsson – Stjarnan - 91



Fleiri fréttir

Sjá meira


×