Sport

Musk og Schwarzenegger sendu Haf­þóri Júlíusi hamingju­óskir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elon Musk og Arnold Schwarzenegger eru meðal þeirra sem hafa óskað Hafþóri Júlíusi til hamingju með heimsmetið.
Elon Musk og Arnold Schwarzenegger eru meðal þeirra sem hafa óskað Hafþóri Júlíusi til hamingju með heimsmetið. samsett

Eftir að kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson setti nýtt heimsmet í réttstöðulyftu í gær hefur hamingjuóskunum hreinlega rignt yfir hann.

Hafþór bætti sitt eigið heimsmet í gær þegar hann lyfti hvorki meira né minna en 505 kílóum á kraftlyftingamóti í Þýskalandi. Fyrra heimsmetið, frá því í maí árið 2020, var 501 kíló.

Fyrra heimsmet Hafþórs var þó ekki óumdeilt, vegna þess að lyftan fór ekki fram á formlegu keppnismóti heldur í aðstöðu Hafþórs í Kópavogi, þar sem viðurkenndir vottunaraðilar höfðu ekki vigtað lóðin áður en hann lyfti.

Opinberlega var fyrra heimsmetið í eigu Englendingsins Eddie Hall, sem lyfti 500 kílóum árið 2016. Nú hefur Hafþór hins vegar tekið allan vafa af því í hvers eigu heimsmetið er.

Meðal þeirra sem hafa óskað Hafþóri til hamingju með árangurinn eru auðkýfingurinn Elon Musk og leikarinn, vaxtaræktafrömuðurinn og fyrrum ríkisstjórinn Arnold Schwarzenegger, sem varð á sínum ferli sex sinnum Mr. Olympia.

„Vá til hamingju,“ ritaði Musk við færslu Hafþórs á samfélagsmiðlinum X, sem er í eigu Musks.

Schwarzenegger sendi Hafþóri hins vegar hamingjuóskirnar í gegnum Instagram.

„Til hamingju, vinur,“ ritaði Schwarzenegger við færslu Hafþórs og undir sömu færslu ritar leikarinn Terry Crews: „Til hamingju maður!!!!! MAGNAÐ.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×