Í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Flugþjóðin var fjallað um Akureyrarflugvöll. Rifjað var upp að við vígslu flugvallarins með 1.000 metra braut fyrir sjötíu árum hafi þáverandi ráðamenn flugmála haft skýra framtíðarsýn. Markmiðið væri að lengja flugbrautina í 2.000 metra. Flugvöllurinn ætti þannig ekki bara að vera lítill innanlandsvöllur. Brautin er núna 2.400 metra löng.
Breska flugfélagið EasyJet hefur í vetur verið með allt að fjögur flug á viku, tvö frá London og tvö frá Manchester. Hollenska félagið Transavia hefur verið með tvö flug á viku frá Amsterdam og svissneska félagið Edelweiss með eitt flug á viku frá Zurich. Jafnframt hefur leiguflug aukist.

Hjördís Þórhallsdóttir flugvallarstjóri segir millilandaflugið fyrst hafa komist á skrið árið 2017. Transavia hafi bæst við árið 2019, svo hafi Niceair komið, síðan Edelweiss og EasyJet.
„Og EasyJet er að vaxa. Þannig að þetta er bara stórkostleg þróun,“ segir Hjördís.
Aukning millilandaflugsins skýrir verulega fjölgun farþega um Akureyri en meðan 27 þúsund manns flugu um Reykjavík í síðasta mánuði flugu 23 þúsund manns um Akureyrarflugvöll, 20 prósent fleiri en í sama mánuði í fyrra.

Tveir þriðju hlutar farþeganna um Akureyri í marsmánuði voru þó í innanlandsfluginu. Þar er flugleiðin milli Reykjavíkur og Akureyrar sú langfjölmennasta.
„Hún heldur sér alltaf mjög vel. Það er alltaf mikið að gera í innanlandsfluginu og bara mjög góðar tölur hjá okkur,“ segir Ari Fossdal, stöðvarstjóri Icelandair á Akureyri.
„Menn héldu eftir covid að allir myndu vera á fjarfundum og annað þvíumlíkt. En við erum ekki að finna fyrir því. Það er bara mikil traffík og mikið að gera,“ segir Ari.
Millilandaflugið nýtist einnig Íslendingum.

„Norðlendingar eru mjög duglegir að nýta sér millilandaflugið. Leiguflugin eru náttúrlega bara mest Íslendingar að fara út,“ segir Hjördís.
Hún áætlar að um 150 manns starfi núna hjá fyrirtækjum á flugvellinum. Hann er því orðinn stór vinnustaður.
„Við sjáum líka bara jákvæðni út í flugvöllinn. Norðlendingar vilja hag flugvallarins sem mestan og vilja bara að hann vaxi og dafni.“
-Það eru engar raddir á Akureyri um að flugvöllurinn skuli víkja?
„Nei,“ svarar Hjördís og hlær. „Hann verður hér.“

„Hann náttúrlega skiptir mjög miklu máli. Hann skiptir bæði máli, eins og allir eru að berjast fyrir í dag, vilja fá beint flug frá Akureyri. Ég skil það vel. En innanlandsflugið skiptir ekki minna máli fyrir þá sem eru að nota það.
Þannig að í heildina þá skiptir þessi flugvöllur mjög miklu máli fyrir Akureyri,“ segir stöðvarstjóri Icelandair í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér:
Þessi þáttur Flugþjóðarinnar, sem frumsýndur var á Stöð 2 í kvöld, fjallar um Akureyrarflugvöll og þátt Eyfirðinga í íslensku flugsögunni.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er.
Hér er kynningarstikla þáttanna: