Það sem af er ári hafa sex kynferðisbrotamál þar sem gerendur eru tveir eða fleiri komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan hefur tekið eftir aukningu á þessum hópnauðganamálum, en í fyrra var tilkynnt um tíu slíkar. Árið þar áður voru þær sex á öllu landinu.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir mörg málanna ekki tilkynnt til lögreglu, og einnig sum sem koma aldrei á yfirborðið.
„Það er sérstakt áhyggjuefni að kerfið virðist ekki grípa það fólk, þá sérstaklega þær konur, sem verða fyrir ofbeldisglæpum. Það er einhvernveginn ekki hannað til þess. Það er skortur á trausti til þess að fá réttlæti í gegnum kerfið. Það er sjálfstætt vandamál og eitthvað sem við erum að reyna að vera í samtali við kerfið um, hvernig við getum byggt upp vinnubrögð og traust sem verða til þess að fólk geti sótt réttlæti í gegnum kerfið,“ segir Drífa.
Það sé stórt skref að fara af stað í kæruferli.
„Kæruferlið getur tekið mjög mikið á. Fyrstu viðbrögð eru því miður oft þannig að þú viljir gleyma þessu og ætlir að komast í gegnum þetta. Bíta á jaxlinn. Síðan kemur í ljós kannski seinna að þetta sé aðeins flóknara,“ segir Drífa.
Hópnauðganir, líkt og önnur kynferðisbrot, hafa gríðarleg áhrif á brotaþola.
„Það er skömm, vanmáttarkennd, kvíði. Við höfum listað afleiðingarnar í gegnum árin. Þetta er alltaf eins. Sjálfsásakanir, brýtur niður sjálfstraust og hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði. Þetta getur haft varanlegar afleiðingar á samskipti við annað fólk, varanleg áhrif á traust,“ segir Drífa.
Hún segir áhyggjuefni ef málunum fer fjölgandi.
„Það er kannski ágætt að við förum að gera okkur grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar kynferðisbrot hafa,“ segir Drífa.