Körfubolti

„Veit að þetta er löng og ströng sería og við erum yfir eins og er“

Stefán Marteinn skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík lagði Þór Þ. af velli 87-73 í Ljónagryfjunni þegar liðin mættust í fyrsta leik úrslitaeinvígis liðana í 8-liða úrslitum í Subway deild karla.

„Við vorum yfir eftir fyrsta leikhluta þannig þetta er bara rétt að byrja. Það eru engar svakalegar tilfinningar í gangi. Maður veit að þetta er löng og ströng sería en við erum yfir eins og er en þetta er fljótt að breytast.“ Sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur eftir leikinn í kvöld.

Njarðvíkingar tóku forystuna í leiknum strax í fyrsta leikhluta og létu hana ekki af hendi það sem eftir lifði leiks en Benedikt vildi þó ekki meina að þetta hafi verið þægilegur sigur.

„Mér leið ekki þannig að það væri einhver lítil hætta því þegar við erum komnir hérna yfir í 20+ hérna í byrjun þriðja þá bara hættum við. Þetta var orðið bara á svona 30% hraða þannig ég var virkilega óánægður með mína leiðtoga að allt í einu hætta að gera það sem var að virka og þeir minnka þetta í tíu stig en maður á ekki að sleppa tökunum svona þegar maður er kominn með þau og ég er ósáttur með það en sáttur með margt líka.“

Benedikt Guðmundsson var eins og gefur að skilja ekki nógu ánægður með þá værukærð sem liðið sýndi í seinni hálfleik.

„Ef það hefði verið smá værukærð þá hefði þetta aldrei verið svona slæmt hjá okkur á þessum kafla en það var hellings værukærð og þetta er ekki í fyrsta skipti sem að ég tala um þetta við bæði liðið mitt og ég hef nefnt þetta í viðtölum áður. Um leið og við erum komnir með eitthvað þægilegt forskot þá er eins og sjálfstraustið verði of mikið og við förum að vera ‘sloppy’ og það bara gengur ekki.“

Það stakk kannski í augun að sjá Chaz Williams bara með fimm stig en hann skilaði þó sextán stoðsendingum sem þjálfarinn sagði réttilega að væri ekki á hvers manns færi.

„Chaz var með 11 stoðsendingar í hálfleik og stýrði þessum leik hérna en ég var ekki jafn ánægður með hann hérna í seinni hálfleik og sagði honum það að hann yrði að halda áfram og gæti ekki verið að fara vera drippla of mikið og við yrðum að halda áfram með það sem virkar en heilt yfir þá var hann góður þó hann hafi bara verið með fimm stig. Ég meina 16 stoðsendingar er ekkert á hvers manns færi.“

Hverju má búast við frá Njarðvíkurliðinu í leik tvö?

„Ég er mjög ánægður með það hvernig við komum inn í þennan leik og það var grimmd í liðinu og mikil orka. Við þurfum að gera það aftur nákvæmlega eins í næsta leik en það verður miklu erfiðara í Þorlákshöfn vegna þess að það er erfitt að spila þar. Þeir skora oftast meira en sjötíu og eitthvað stig á heimavelli, meira heldur en að þeir gerðu hér í kvöld þannig við þurfum að vera enn þá betri ef að við ætlum að vinna þann leik. “
Fleiri fréttir

Sjá meira


×