Erlent

Aukið fé til varnar­mála og her­skylda lykil­við­brögð við á­sækni Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kallas segir að grípa verði til aðgerða núna, ekki þegar það verður orðið of seint.
Kallas segir að grípa verði til aðgerða núna, ekki þegar það verður orðið of seint. AP/Omar Havana

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, segir Eista bæði upplifa öryggi vegna aðildar sinnar að Atlantshafsbandalaginu en einnig óttast næstu skref Vladimir Pútín Rússlandsforseta.

Hún segir bráðnauðsynlegt að aðildarríki Nató standi við það að verja tveimur prósentum landsframleiðslu sinnar til varnarmála.

„Árið 1938 var ljóst að það stefndi í stríð þannig að útgjöld til varnarmála voru aukin um 100 prósent en það var of seint,“ segir Kallas í samtali við BBC. „Þetta er það sem við þurfum að gera núna til að varðveita lífsmáta okkar, til að varðveita frið í Evrópu,“ bætir hún við.

Staðan er hins vegar sú að færri en tveir þriðjuhlutar aðildarríkja Nató hafa náð tveggja prósenta markmiðinu, sem hefur meðal annars verið harkalega gagnrýnt af Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og núverandi forsetaframbjóðanda.

Kallas segir herskyldu einnig geta skipt sköpum.

„Við búum að varaherliði sem telur 44 þúsund manns, sem jafngildir um tveimur milljónum fyrir Bretland. Tveimur milljónum einstaklinga sem eru reiðubúnir til að verja land sitt og vita hvað þeir þurfa að gera,“ segir hún.

Hún segir hvert ríki þurfa að ákveða það fyrir sig að taka upp herskyldu en hún mæli með því. Það komi henni hins vegar ekki á óvart að áköllum um herskyldu hafi verið hafnað í Bretlandi. Saga ríkjanna sé ólík.

„Við höfum glatað sjálfstæði okkar og frelsi einu sinni og viljum ekki glata því aftur. Þeir segja að þú skiljir aðeins frelsi og hvað það þýðir þegar þú hefur það ekki.“

Litháen tók upp herskyldu eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 og Lettland og Svíþjóð hafa gert slíkt hið sama í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þá hafa stjórnvöld í Noregi tilkynnt að þau hyggist fjölga í hernum og Danir ákveðið að kveða konur í herinn og lengja herskylduna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×