Sport

„Tölu­vert skemmti­legra að vinna heldur en að tapa“

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Ingi Erlingsson var ánægður með sigurinn
Rúnar Ingi Erlingsson var ánægður með sigurinn Vísir/Anton Brink

Njarðvík komst aftur á sigurbraut eftir 27 stiga sigur gegn Stjörnunni 99-72. Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur var ansi ánægður með að fjögurra leikja taphrinu liðsins sé lokið.

„Það er töluvert skemmtilegra að vinna heldur en að tapa. Þetta var flott frammistaða í kvöld og þær svöruðu kallinu,“ sagði Rúnar Ingi ánægður með sigurinn og hélt áfram.

„Sóknarlega létum við boltann vinna vel fyrir okkur. Við vorum með sautján stoðsendingar og þrjá tapaða bolta. Við trúðum á okkur, vorum jákvæð og gerðum við þetta saman.“

„Varnarlega var ég heilt yfir sáttur við það sem við vorum að gera í kvöld. Við hefðum átt að vera sneggri að bregðast við þegar þær komu með lausnir til að komast að hringnum. Gamli góði krókur á móti bragði.“

Stjarnan kom til baka í þriðja leikhluta og náði að minnka forskot Njarðvíkur undir tíu stig en það var allt og sumt.

„Við þurftum ekkert að breyta til og gera eitthvað öðruvísi. Það er eðlilegt í körfu að þær komi með áhlaup. Við þurftum að taka á því andlega með ró og trú. Um leið og skotin fóru að detta þá bættum við aftur í forystuna.“

„Körfubolti er þannig íþrótt að þetta eru 20 sekúndur og sveiflan gæti verið sex stig upp eða niður. Við héldum einbeitingu og bjuggum til þriggja stiga körfu. Við komum síðan af krafti inn í síðasta leikhlutann og bjuggum til þriggja stiga skot fyrir Angelu Strize með frábærri boltahreyfingu og liðið var að vinna saman sem ég er ánægðastur með,“ sagði Rúnar Ingi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×