Körfubolti

„Hann má reyna að ljúga að þjóðinni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dedrick Basile í leik með Grindavík á móti Njarðvík.
Dedrick Basile í leik með Grindavík á móti Njarðvík. Vísir/Diego

Dedrick Basile átti frábæran leik með Grindavík í stórsigri á hans gömlu félögum í Njarðvík. Basile skoraði nítján stig í fyrsta leikhlutanum og endaði leikinn með 40 stig og níu stoðsendingar.

Subway Körfuboltakvöld ræddi tvo lykilmenn Grindavíkurliðsins, bæði frammistöðu Basile en líka yfirlýsinguna frá liðsfélaga hans Deandre Kane.

„Hann var rosa flottur, alveg frábær. Með 40 stig og níu stoðsendingar og tæp tuttugu stig í fyrsta leikhlutanum,“ sagði Helgi Már Magnússon, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Hann var bara ótrúlegur í þessum leik og hann má reyna að ljúga að þjóðinni ítrekað í viðtölum að hann gíri sig ekkert sérstaklega upp fyrir Njarðvíkurleiki. Það er bara rugl,“ sagði Helgi Már.

Basile spilað með Njarðvíkurliðinu undanfarin tvö ár en flutti sig yfir til Grindavíkur síðasta sumar.

„Eðlilega. Menn eru að spila á móti gömlu félögunum og það er smá auka,“ sagði Helgi.

Þeir skoðuðu tölfræði Basile í leikjunum á móti Njarðvík í vetur en hann hefur verið mjög góður í þeim báðum.

„Maður sér þetta alveg. Hann er búinn að vera tala við fólk upp í stúku. Það er mjög augljóst að hann er að búa sér til mótiveringu fyrir þessa leiki,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Körfuboltakvöld fjallaði einnig um Deandre Kane og yfirlýsingu hans í viðtali við Víkurfréttir í síðustu viku þar sem hann sagði að Grindavík yrði Íslandsmeistari af því að hann væri í liðinu.

„Þetta er gaman að sjá. Menn eru stórir og eru ekkert feimnir við að flagga því. Ég ímynda mér að allir Grindvíkingar ætli að vera Íslandsmeistarar. Þeir eru með hóp sem á að geta hótað því,“ sagði Helgi.

„Ef hann dettur út í átta liða úrslitunum þá lítur hann út fyrir að vera algjör lúser,“ sagði Matthías.

Það má sjá umræðuna hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Frammistaða Basile og yfirlýsing Kane



Fleiri fréttir

Sjá meira


×