Sport

Þrettán ára stelpa keppir í tveimur greinum á Reykja­víkur­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyja Nótt Andradóttir vakti mikla athygli með frábæru hlaupi sínu í mars í fyrra.
Freyja Nótt Andradóttir vakti mikla athygli með frábæru hlaupi sínu í mars í fyrra. Skjámynd/RUV

Freyja Nótt Andradóttir verður meðal keppenda í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna um helgina.

Frjálsíþróttaveislan verður á sunnudaginn kemur í Laugardalshöllinni.

Það sem er athyglisverðast við þátttöku Freyju er að hún er aðeins þrettán ára gömul. Frjálsíþróttasambandið slær því upp að hún sé fjórtán ára en Freyja heldur ekki upp á afmælið sitt fyrr en um miðjan maí.

Freyja er því enn aðeins þrettán ára þegar hún mun taka þátt í bæði 60 metra og 200 metra hlaupi á Reykjavik International Games 2024.

Þegar Freyja var tólf ára gömul þá komst hún í fréttirnar með því að hlaupa 60 metra hlaup á stökkmóti FH í Kaplakrika í Hafnarfirði á aðeins 7,58 sekúndum. Þetta gerði hún 9. mars í fyrra.

Freyja bætti þar Íslandsmetið í fjórum aldursflokkum (13 ára, 14 ára, 15 ára og 17 ára) og það var líka besti tími sögunnar hjá tólf ára stúlku í 60 metra hlaupi innanhúss samkvæmt gagnagrunni „Age records“.

Hún á einnig Íslandsmet innanhúss í 200 metra hlaupi hjá þrettán ára og yngri en hún kom í mark á 25,59 sekúndum 28. desember í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×