Erlent

Von á bráða­birgða­úrskurði frá Al­þjóða­dóm­stólnum í dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mikill fjöldi mótmælti fyrir utan dómstólinn á meðan Ísraelar svöruðu fyrir ásakanir Suður-Afríkumanna.
Mikill fjöldi mótmælti fyrir utan dómstólinn á meðan Ísraelar svöruðu fyrir ásakanir Suður-Afríkumanna. Vísir/EPA

Von er á bráðabirgðaúrskurði frá Alþjóðadómstólnum í Haag í máli Suður-Afríku gegn Ísrael. Suður-Afríka óskaði þess í máli sínu að dómstóllinn myndi til bráðabirgða úrskurða um það að Ísraelar láti af hernaði sínum á Gasa á meðan dómstóllinn tekur fyrir ásakanir þeirra um þjóðarmorð Ísraela á Gasa. 

Þrátt fyrir að niðurstöðu í málinu sé líklega ekki að vænta fyrr en eftir mörg ár um ásakanir Suður-Afríkumanna í garð Ísrael um þjóðarmorð á Gasa gæti dómstóllinn í dag fyrirskipað Ísrael að láta af hernaði sínum á Gasa, sem neyðarráðstöfun. Suður-Afríka óskaði þess að dómstóllinn úrskurðaði sérstaklega um slíkar neyðarráðstafanir, á meðan ásakanir þeirra um þjóðarmorð eru teknar fyrir, til að vernda Palestínumenn á Gasa. 

Fulltrúar Ísrael svöruðu fyrir ásakanir Suður-Afríkumanna í dómstólnum. Þeir mótmæltu þeim harðlega og óskuðu þess að málinu yrði vísað frá. Vísir/EPA

Fulltrúar beggja ríkja báru vitni fyrir dómstólnum fyrir um tveimur vikum og mótmæltu Ísraelar ásökunum Suður-Afríkumanna um þjóðarmorð af miklum ákafa og óskuðu þess að málið yrði ekki tekið fyrir í dómstólnum. Fulltrúar þeirra sögðu Ísraela eiga rétt á því að verja sig og vísuðu til árásar Hamas-liða þann 7. október þar sem 1.300, meðal annars almennir borgarar í Ísrael, voru myrtir.

Sú bráðabirgðaniðurstaða sem birt verður í dag lýtur aðallega að þeirri neyð sem er á Gasa ströndinni. Þrátt fyrir að úrskurðir dómstólsins séu bindandi þá er engin leið til að knýja þá fram eða neyða lönd til að framfylgja þeim. Á vef BBC segir að ef niðurstaða dómstólsins í dag sé ekki Ísrael í dag sé ekkert sem komi í veg fyrir að þau geti hundsað niðurstöðuna.

Lögmenn Suður Afríku, John Dugard, Tembeka Ngcukaitobi og Adila Hassim í dómstólnum þann 12. janúar þegar málið var tekið fyrir. Vísir/EPA

Það myndi þó setja meiri pólitískan þrýsting á yfirvöld í Ísrael að vinna að vopnahléi á Gasa. Það mun einnig setja meiri þrýsting á að helstu bandamenn Ísraela geri það sem þeir geti bakvið tjöldin til að vinna að lausn og tryggja að neyðaraðstoð fái að berast inn á svæðið.

Fjallað er líka um málið á vef AP. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×