Innlent

„Þetta er hálft skref í rétta átt“

Árni Sæberg skrifar
Daníel Ágúst las upp kröfur tónlistarfólksins á mótmælunum.
Daníel Ágúst las upp kröfur tónlistarfólksins á mótmælunum. Vísir/Sigurjón

Daníel Ágúst Haraldsson, sem var einn fjölda tónlistarmanna sem mótmæltu fyrirhugaðri þátttöku Íslendinga í Eurovision, segist fagna því að yfirmenn Ríkisútvarpsins hafi frestað endanlegri þátttöku fram yfir Söngvakeppni sjónvarpsins. Hann hefði þó viljað sjá skrefið stigið til fulls.

Þeir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Rúnar Freyr Gíslason verkefnisstjóri á RÚV mættu í Síðdegisútvarp Ríkisútvarpsins í dag, þar sem þeir ræddu Eurovision og þátttöku Íslands þar.

Rúnar Freyr tilkynnti þar að það sem væri nýtt í málinu væri að nú væri búið að klippa á tengsl Söngvakeppninnar og Eurovison. Þá þannig að ákvörðun verði ekki tekin um hvort Ísland taki þátt fyrr en eftir að Söngvakeppninni er lokið.

Ákvörðun Ríkisútvarpsins í þessum efnum hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, enda vill talsverður hluti þjóðarinnar ekki að Ísland taki þátt í ljósi þátttöku Ísraelsmanna og framgöngu þeirra í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Þátttökunni mótmælt  

Skömmu fyrir jól voru haldin mótmæli við Útvarpshúsið og tæplega tíu þúsund undirskrifta undirskriftalisti var afhentur Stefán útvarpsstjóra. Krafa mótmælenda var einföld; að Ísland drægi sig úr keppni. 

Þá mætti hópur landsþekkts tónlistarfólks á fund útvarpsstjóra daginn eftir og afhenti honum sams konar undirskriftarlista, sem 550 kollegar þeirra höfðu undirritað. Meðal þeirra sem hélt tölu á þeim mótmælum var Daníel Ágúst Haraldsson.

Hann segir í samtali við Vísi eftir tilkynningu þeirra Stefáns og Rúnars Freys að hann fagni ákvörðun þeirra um að fresta endanlegri ákvörðun um þátttöku þar til eftir Söngvakeppni.

„Ríkisútvarpið er með þessu að taka hálft skref í rétta átt en afstaðan gagnvart þátttöku Ísraela er frekar óskýr. En það að þeir séu ekki að ætlast til þess að tónlistarmaðurinn, sem vinnur hérna heima, taki þátt úti, það er mjög jákvætt.“

Hann segist þó hefði viljað sjá skýrari niðurstöðu, að Ísland myndi ekki taka þátt í keppninni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×