Innlent

Ekki dæmdar bætur: Réðst á heimili sitt, flúði og ók í veg fyrir lög­reglu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvikið sem málið varðar átti sér stað á Suðurlandi í maí 2018
Atvikið sem málið varðar átti sér stað á Suðurlandi í maí 2018 Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að íslenska ríkið og tvö tryggingafélög beri ekki bótaábyrgð vegna áreksturs sem maður lenti í við lögreglubíl í maí árið 2018. Lögreglubíllinn fór aftan í bíl mannsins með þeim afleiðingum að hann endaði utan vegar og maðurinn hálsbrotnaði við það.

Maðurinn krafðist aðallega viðurkenningar á því að tryggingafélagið Vörður, sem tryggði lögreglubílinn, bæri ábyrgð á líkamstjóninu sem hann varð fyrir. Landsréttur féllst ekki á það.

Lögreglan ók meðvitað á bíl mannsins, en það var til að stöðva ofsaakstur hans um Skálholtsveg, Skeiða- og Hrunamannveg og Þjórsárdalsveg á Suðurlandi.

Réðst á heimili sitt 

Í dómi málsins kemur fram að lögregla hafi verið kölluð til vegna tilkynningar um árás mannsins gegn heimili hans, þar sem inni voru kona og börn, og í framhaldinu hafi hann flúið af vettvangi ölvaður.

Maðurinn hafði farið fyrir dóm vegna aksturs síns þetta skipti. Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði ekið bíl sínum á 110 kílómetra hraða og ekki fylgt stöðvunarmerkjum lögreglu, og viðurkenndi hann að hafa orðið var við stöðvunarmerkin.

Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms í málinu.Vísir/Vilhelm

Þeim dómi var ekki áfrýjað og því notaðist Landsréttur við hann við úrlausn málsins, en í honum kom fram að maðurinn hefði sveigt vísvitandi og af ásetningi yfir á rangan vegarhelming á meðan lögreglubíll veitti honum eftirför.

Stefndi lífi lögreglumanna í hættu

Þar að auki hafi hann, með lögreglubílinn fast á eftir sér, ítrekað nauðhemlað á yfir níutíu kílómetra hraða. Með því hafi hann hótað lögreglumönnum við skyldustörf ofbeldi og stofnað lífi og heilsu þeirra í hættu.

Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafði með framferði sínu skapað ótvíræða hættu fyrir aðra vegfarendur. Hann hefði raskað umferðaröryggi á alfaraleið.

Í niðurstöðu sinni segir í dómi Landsréttar að hafa verði í huga hlutverk lögreglu til að gæta almannaöryggis og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgara.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið tæk viðurhlutaminni úrræði við að stöðva akstur mannsins. Lögreglumaðurinn hafi því átt rétt á að aka aftur á manninn. Maðurinn beri því sjálfur ábyrgð á líkamstjóni sínu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×