Sport

Ofur­hlaupa­kona dæmd í bann fyrir að fá far í miðju hlaupi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joasia Zakrzewski kenndi flugþreytu um slæma ákvörðunartöku sína.
Joasia Zakrzewski kenndi flugþreytu um slæma ákvörðunartöku sína. Getty/Kai-Otto Melau

Joasia Zakrzewski stóð á verðlaunapallinum í apríl eftir Manchester-Liverpool ofurhlaupið en þegar betur var á gáð þá hafði hún fengið góða aðstoð í hlaupinu.

Zakrzewski fékk nefnilega far frá vini sínum í fjóra kílómetra af þeim áttatíu sem keppendur þurftu að hlaupa.

Zakrzewski lét reyndar vita af því að hún hefði fengið far en hún steig engu að síður upp á verðlaunapallinn og tók við verðlaunum sínum. Hún sat líka fyrir á verðlaunamyndum.

Hún kenndi flugþreytu um það að hafa ekki hugsað skýrt þegar hún settist upp í bílinn. Hún hafði flogið frá Ástralíu daginn áður.

„Þegar ég kom á næstu mælistöð þá lét þá vita að ég ætlaði að hætta keppni og að ég hefði fengið far. Þeir sögðu við mig þú munt hata sjálfa þig ef þú hættir,“ sagði Zakrzewski eftir hlaupið.

„Ég ákvað að halda áfram en án keppni. Ég passaði mig að fara ekki fram úr keppandanum á undan mér þegar ég sá hana,“ sagði Zakrzewski. Hún viðurkenndi samt að hún hefði átt að skila verðlaunum sínum.

Zakrzewski hefur nú verið dæmd í eins árs bann fyrir svindlið.

Breska frjálsíþróttasambandið hefur nú dæmt hana í tólf mánaða bann. Sambandið hafnaði skýringum hennar og hún má ekki keppa, þjálfa eða koma eitthvað nálægt keppni næsta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×