Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að hótelinu hefði verið heimilt að reka manninn. Hann hefði brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum vegna umgengni sinnar við matvæli, hreinlæti í eldhúsi og framkomu hans við samstarfsmenn. Auk þess taldist sannað að maðurinn hefði ekki notað stimpilklukku vinnustaðarins og viðhaft rangar tímaskráningar.
Haft er eftir heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, sem fór í eftirlitsferð á hótelið, að það hafi verið næstversta eftirlitsheimsóknin sem hann fór í á sínum tuttugu ára ferli.
Enn fremur lýsti fyrrverandi yfirþjónn því að ferskmeti hefði verið látið standa við stofuhita á borði í eldhúsi matreiðslumannsins og sagði hann það hafa verið að fara að líta illa út. Aðstoðarhótelstjóri sagði matreiðslumanninn svo ítrekað hafa öskrað á starfsfólk í eldhúsi þannig að gestir heyrðu til hans frammi í sal, jafnvel þó þar væri spiluð tónlist.
Matreiðslumaðurinn sagði í málskotsbeiðni sinni til Hæstaréttar að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og sakarefni þess fordæmisgildi á almennum vinnumarkaði. Ennfremur að dómur Landsréttar hafi bersýnilega verið rangur. Hæstiréttur hafnaði beiðininni og sagði hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að dómur Landsréttar bersýnilega rangur.