Sport

„Ótrúlega ljúf tilfinning að vinna loksins fótboltaleik“

Andri Már Eggertsson skrifar
Haraldur Freyr var ánægður með sigurinn
Haraldur Freyr var ánægður með sigurinn Vísir/Hulda Margrét

Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var afar ánægður með 2-1 sigur gegn HK. Þetta var fyrsti sigur Keflvíkinga síðan í 1. umferð. 

„Þetta var ótrúlega ljúf tilfinning að vinna loksins fótboltaleik,“ sagði Haraldur eftir kærkominn sigur heimamanna.

Haraldur Freyr var ekki sáttur með hvernig leikurinn byrjaði og eftir átta mínútur var staðan jöfn 1-1.

 „Mér fannst við ekki byrja leikinn vel og við vorum varkárir en það var gott að fá mark. Sagan okkar í sumar hefur verið þannig að þegar við höfum skorað þá höfum við fengið mark á okkur í kjölfarið sem gerðist. Við komum síðan yfir og spiluðum fínan seinni hálfleik.“

Haraldur var ánægður með annað mark Keflvíkinga sem Sami Kamel skoraði og það reyndist sigurmarkið.

„Þetta var vel klárað og góð sókn hjá okkur. Við verðum að halda áfram og hafa trú á því að við vinnum næsta leik.“

Keflavík hefur oft verið í þeirri stöðu að vera yfir þegar lítið er eftir og fengið á sig jöfnunarmark en að þessu sinni náði Keflavík að halda forystunni.

„Í seinni hálfleik ætluðum við að vinna boltann hátt á góðum stöðum sem við gerðum en nýttum ekki færin.“

Keflavík er sex stigum frá næstu liðum og Haraldur var bjartsýnn á framhaldið þar sem Keflavík á eftir að mæta Fram og ÍBV.

„Það munar sex stig á liðunum og það eru þrír leikir eftir svo möguleikinn er til staðar,“ sagði Haraldur Freyr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×