Handbolti

„Við vorum slakir sóknar­lega“

Hinrik Wöhler skrifar
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Önnur um­ferð Olís-deildar karla fór af stað með stór­leik í Origo-höllinni þar sem Valur og FH áttust við í kvöld. Leikurinn endaði með eins marks sigri Vals­manna, 27-26. Sigur­steinn Arn­dal, þjálfari FH, telur að það séu þó nokkur at­riði sem megi bæta í leik sinna manna.

„Þetta var svekkjandi tap en samt sem áður áttu Vals­menn þetta skilið og ég óska þeim til hamingju með sigurinn. Við vorum ekki nógu góðir í dag, við vorum slakir sóknar­lega og förum með mikið af dauða­færum. Al­mennt var skot­nýtingin ekki góð og til­finningin er að tækni­f­eilarnir voru allt­of margir,“ sagði Sigur­steinn skömmu eftir leik.

Leikurinn var jafn framan af en um mið­bik síðari hálf­leiks náðu Vals­menn að komast yfir og leiddu þangað til að loka­flautið gall.

„Í seinni hálf­leik þá erum við komnir þremur mörkum yfir á tíma­punkti og erum með móment til að klára leikinn en við förum mjög illa með leikinn. Við klikkum aftur á færum og Vals­liðið er allt­of gott til að geta leyft sér þannig spila­mennsku.“

Sóknar­leikur FH-inga gekk ekki nægi­lega vel upp í síðari hálf­leik og skot­nýtingin ekki upp á marga fiska. Gestirnir geta þakkað mark­verði sínum, Daníel Frey Andrés­syni, að þeir voru inn í leiknum lengst af en hann varði sau­tján skot í leiknum í kvöld.

„Daníel í markinu var flottur og varnar­lega vorum við allt í lagi. Það voru móment sem litu vel út en það vantar stöðug­leika líka þar. Við þurfum að bæta okkur viku eftir viku,“ sagði Sigur­steinn.

Tveir leikir eru búnir af deildar­keppninni en Hafn­firðingar sigruðu Aftur­eldingu í fyrsta leik tíma­bilsins

„Mér líst vel á mótið og þannig lagað byrjunina. Við vissum að fyrstu tveir leikirnir væru hörku­leikir og þurfum hafa okkur alla við til að ná okkar mark­miðum og það er mikil vinna fram­undan. Þetta er önnur um­ferð og það á margt eftir að gerast,“ sagði Sigur­steinn þegar hann var spurður út í byrjun mótsins.

Næsta verk­efni er Bikar­keppni Evrópu og halda FH-ingar til Grikk­lands í vikunni.



„Nú setum við hausinn á fullt í það verk­efni og þurfum að bæta frammi­stöðuna frá því í dag. Við fáum nokkra góða daga saman í Grikk­landi sem við ætlum að nýta vel,“ bætti Sigur­steinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×