Handbolti

Gísli Þor­geir fékk loks verð­launin sín

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir var heiðraður fyrir leik Magdeburgar um helgina.
Gísli Þorgeir var heiðraður fyrir leik Magdeburgar um helgina. Magdeburg

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, var kosinn leikmaður tímabilsins 2022-23. Hann fékk þó ekki verðlaunin fyrr en nú um liðna helgi.

Hinn 24 ára gamli Gísli Þorgeir var hreint út sagt frábær í liði Magdeburgar á síðustu leiktíð. Þó svo að liðið hafi þurft að sætta sig við silfur heima fyrir, eftir að enda tveimur stigum á eftir Kiel, þá fór FH-ingurinn á kostum.

Ásamt því að spila frábærlega með Magdeburg í deildinni þá var þessi stórskemmtilegi miðjumaður ein helsta ástæða þess að liðið stóð uppi sem Evrópumeistari í lok tímabils.

Það kostaði þó sitt þar sem Gísli Þorgeir spilaði úrslitaleikinn eftir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitum. Hann er því sem stendur á meiðslalistanum og mun ekki spila fyrr en á nýju ári.

Magdeburg lagði Hamburg með 11 marka mun um helgina, þar sem Ómar Ingi Magnússon minnti á sig með átta mörkum og fimm stoðsendingum. Fyrir leik var Gísli Þorgeir heiðraður en hann er mættur aftur til Þýskalands eftir að hafa verið í endurhæfingu hér á landi undanfarið.

Magdeburg hefur byrjað tímabilið heima fyrir á þremur sigrum og einu tapi. Næsti leikur liðsins er í Meistaradeildinni í miðri viku þegar Magdeburg fær Bjarka Má Elísson og félaga í ungverska liðinu Veszprém í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×