Handbolti

Kynda undir heim­komu Arons með skemmti­legu mynd­bandi: „Ég væri helst til í að fylla Krikann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson á skólalóðinni í Setbergsskóla.
Aron Pálmarsson á skólalóðinni í Setbergsskóla. fh

Spennan fyrir fyrsta leik Arons Pálmarssonar með FH í fjórtán ár eykst stöðugt og FH-ingar kynntu undir spenninginn með skemmtilegu myndbandi með honum.

Skömmu fyrir jól í fyrra var staðfest að Aron myndi snúa heim til FH í sumar eftir fjórtán ár í atvinnumennsku.

Á morgun leikur Aron sinn fyrsta leik fyrir FH síðan 12. mars 2009 þegar Afturelding kemur í heimsókn í Kaplakrika í 1. umferð Olís-deildarinnar.

FH-ingar hafa skiljanlega gert mikið úr heimkomu Arons og bjuggu til afar skemmtilegt myndband til að hita undir leikinn annað kvöld.

Í því heimsækir Aron gamla skólann sinn, Setbergsskóla, og á æfingu í Krikanum. Aron hvetur líka stuðningsmenn FH til að leggja sitt af mörkum í vetur þar sem liðið stefnir á toppinn.

„Við þurfum á ykkar stuðningi að halda. Það er alveg á hreinu. Við ætlum okkur að stækka þetta og ætlum okkur gríðarlega stóra hluti í vetur. Þannig ég vonast til að sjá sem flesta á fimmtudaginn. Og ég væri helst til í að fylla Krikann. Því það verður alvöru stemmning. Ég mun mæta stemmdur. Það er alveg á hreinu. Ég er mjög spenntur,“ segir Aron í myndbandinu sem má sjá hér fyrir neðan.

FH var spáð sigri í Olís-deildinni í árlegri spá forráðamanna liðanna í deildinni sem var kynnt í gær.

FH fékk 391 af 395 stigum í kosningunni. Ef spáin rætist vinnur Aron því sinn fyrsta titil með FH næsta vor.

Á glæstum ferli í atvinnumennsku vann Aron fjölda titla með Kiel, Veszprém, Barcelona og Álaborg, meðal annars Meistaradeild Evrópu í þrígang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×