Sport

Djokovic snéri taflinu við og draumurinn um 24. risatitilinn lifir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Novak Djokovic er á höttunum eftir sínum 24. risatitli.
Novak Djokovic er á höttunum eftir sínum 24. risatitli. Vísir/Getty

Serbinn Novak Djokovic, einn besti tenniskappi sögunnar, þurfti að hafa sig allan við til að snúa taflinu við gegn landa sínum Laslo Djere í þriðju umferð Opna bandaríska risamótsins í tennis í nótt.

Djokovic er að eltast við sinn 24. risatitil á ferlinum sem myndi gera hann að jafnsigursælasta tennisspilara sögunnar, en hann lenti í basli gegn Djere í nótt.

Djere vann fyrsta og annað settið, bæði 6-4, og var því aðeins einu setti frá því að slá Djokovic úr leik.

Djokovic sýndi þó og sannaði af hverju hann er talinn einn besti tenniskappi sögunnar er hann snéri taflinu við. Hann vann þriðja settið 6-1, fjórða settið einnig 6-1 og kláraði svo dæmið með 6-3 sigri í fimmta og seinasta settinu.

Djokovic er því kominn í 16-manna úrslit þar sem hann mætir Króatanum Borna Gojo. Gojo situr í 105. sæti heimslistans og þarf því líklega mikið að fara úrskeiðis hjá Djokovic til að koma í veg fyrir að hann tryggi sér sæti í fjórðungsúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×