Sport

Heims­met féll þegar Nebraska og Omaha Ma­vericks mættust í banda­ríska há­skóla­blakinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimsmetið féll í Nebraska.
Heimsmetið féll í Nebraska. Twitter@Huskers

Ótrúlegur fjöldi manns lét sjá sig þegar Cornhuskers, kvennalið Nebraska-háskólans, tók á móti Omaha Mavericks í bandaríska háskólablakinu í vikunni Svo mikill var fjöldinn reyndar að um heimsmet er að ræða, aldrei hafa fleiri komið saman á íþróttaviðburði kvenna.

Áhugi á kvennaíþróttum hefur aldrei verið meiri og má sem dæmi nefna gríðarlega áhorfstölur á HM kvenna í knattspyrnu í sumar. Það skal hins vegar aldrei vanmeta Bandaríkjamenn og vilja þeirra til að koma sér í heimsfréttirnar, hvað þá þegar um háskólaíþróttir er að ræða.

Á miðvikudagskvöld tóku Cornhuskers á móti Omaha Mavericks í leik sem laðaði að sér 92.003 áhorfendur. Um heimsmet er að ræða en aldrei hafa fleiri mætt á íþróttaviðburð kvenna. Aðsóknarmetið í NCAA-deildinni í blaki var Nebraska fyrir leikinn en það voru þó „aðeins“ 18.755 áhorfendur sem mættu á þann leik. 

Heimsmetið áður en leikur Cornhuskers og Omaha Mavericks fór fram átti viðureign Barcelona og Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu. Alls mættu 91.648 áhorfendur á þann leik. Var Sveindís Jane Jónsdóttir meðal leikmanna sem spiluðu þann leik.

Nú hefur ráin verið hækkuð enn frekar og spurning hvort eitthvað kvennalið brjóti 100 þúsund áhorfenda múrinn á næstunni.

Hvað leik Cornhuskers og Omaha Mavericks varðar þá unnu Cornhuskers öruggan 3-0 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×