Sport

Rann í að­hlaupinu og flaug á hausinn í gryfjuna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Carey McLeod sést hér fljúga í langstökksgryfjuna með höfuðið á undan.
Carey McLeod sést hér fljúga í langstökksgryfjuna með höfuðið á undan. Vísir/Getty

Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum er í fullum gangi í Búdapest. Fjölmargir íþróttamenn hafa þegar fagnað gullverðlaunum en það gengur ekki eins og best verður á kosið hjá þeim öllum.

Þetta má svo sannarlega til sanns vegar færa um langstökkskeppnina hjá Jamaíkumanninum Carey McLeod.

McLeod endaði reyndar í fjórða sæti í langstökki í keppninni í Búdapest í kvöld sem verður að teljast góður árangur. McLeod lenti hins vegar í ansi óheppilegu en jafnframt skondnu atviki í keppninni.

Þegar hann var í aðhlaupi í þriðja stökki sínu rann hann á plankanum fyrir framan gryfjuna og flaug stjórnlaust áfram. Hann lenti með höfuðið á undan í gryfjunni en virtist ekki slasa sig. Hann náði sér þó ekki á strik í keppninni eftir að atvikið.

McLeod var í þriðja sæti þegar atvikið átti sér stað en missti skömmu síðar af bronsverðlaununum sem féllu þess í stað í skaut landa hans Tajay Gayle.

Keppendur í langstökkinu hafa gagnrýnt hversu sleipur plankinn í langstökkinu er og McLeod er ekki fyrsti keppandinn til að renna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×