Næsta keppnishelgi Formúlu 1 fer fram í Zandvoort í Hollandi og hingað til hefur fátt geta stöðvað heimamanninn Max Verstappen í því að sækja sinn þriðja heimsmeistaratitil á ferlinum.
Verstappen er með 125 stiga forystu á toppi stigakeppni ökumanna, hann hefur unnið átta keppnir í röð og sigur í Zandvoort sér til þess að hann jafnar met Sebastian Vettel sem vann á sínum tíma mest níu keppnir í röð.
Vettel er einn af bestu ökumönnum Formúlu 1 frá upphafi með fjóra heimsmeistaratitla á bakinu og allir komu þeir með núverandi liði Verstappen, Red Bull Racing.

Metið yfir flesta keppnissigra í röð náði Vettel að setja á sínu síðasta tímabili með Red Bull Racing árið 2013.
Miðað við þróun yfirstandandi tímabils er óhætt að segja að líkurnar séu með Verstappen hvað varðar það hvort hann nái að jafna metið og yrði það önnur rós í hnappagat hans takist honum ætlunarverk sitt.