Sport

Telur að heimsmet Usains Bolt séu í hættu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Noah Lyles ætlar sér að bæta 14 ára gamalt heimsmet Usains Bolt.
Noah Lyles ætlar sér að bæta 14 ára gamalt heimsmet Usains Bolt. Vísir/Getty

Bandaríski spretthlauparinn Noah Lyles setur stefnuna á þrjá heimsmeistaratitla á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem hefst um helgina og telur að hann geti ógnað heimsmetum Usains Bolt í 100 og 200 metra hlaupum.

Heimsmeistaramótið hefst næstkomandi laugardag, þann 19. ágúst, og stendur fram á sunnudag viku síðar. Búist er við því að nokkur heimsmet verði slegin og fylgjast margir spenntir með því hvort Noah Lyles geti staðið við stóru orðin og bætt heimsmet Usains Bolt í 100 og 200 metra spretthlaupum.

Lyles greindi frá því á samfélagsmiðlum sínum á dögunum að hann ætlaði sér að hlaupa 100 metrana á 9,65 sekúndum og 200 metrana á 19,10 sekúndum.

Heimsmet Bolts eru 9,58 sekúndur í 100 metra hlaupi og 19,19 sekúndur í 200 metra hlaupi. Gangi spá Lyles eftir mun hann því bæta heimsmetið í 200 metra hlaupi um 0,09 sekúndur og vera aðeins 0,07 sekúndum frá tíma Bolts í 100 metra hlaupi.

Lyles hljóp 200 metrana á 19,47 sekúndum á Demantamótaröðinni í júlí á þessu ári, en það er besti tími ársins í heiminum og hann fer því fullur sjálfstrausts inn í heimsmeistaramótið.

Heimsmet Bolts hafa staðið frá því á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum árið 2009, eða í 14 ár. Heimsmetið í 100 metra hlaupi var sett á þessum degi fyrir 14 árum, þann 16. ágúst 2009, og heimsmetið í 200 metra hlaupi fjórum dögum seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×