Sport

Guð­björg keppir við Evrópu­meistara og Kol­beinn biður um logn

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Höður Gunnarsson hefur hlaupið fjórum sinnum undir Íslandsmetinu í 100 metra hlaupi, en alltaf í aðeins of miklum meðvindi til að fá það skráð.
Kolbeinn Höður Gunnarsson hefur hlaupið fjórum sinnum undir Íslandsmetinu í 100 metra hlaupi, en alltaf í aðeins of miklum meðvindi til að fá það skráð. FRÍ/MARTA SILJUDÓTTIR

Það verður nóg um að vera á ÍR-vellinum á morgun þegar bikarkeppni frjálsíþróttasambands Íslands fer fram.

FH hefur titil að verja eftir að hafa unnið þrefalt, það er að segja stigakeppni karla, kvenna og samanlagt, síðustu ár eða frá og með 2019 (ekki var keppt 2020 vegna Covid).

Keppnin stendur yfir frá klukkan 13 til 16 á morgun og á meðal hápunkta má nefna 100 metra hlaup karla og kvenna.

Kolbeinn Höður Gunnarsson jafnaði Íslandsmet Ara Braga Kárasonar í 100 metra hlaupi í sumar og hefur alls fjórum sinnum náð að hlaupa undir Íslandsmetinu í ár. Hins vegar hefur meðvindur alltaf mælst of mikill til að metið teljist gilt og því ekki aðeins spurning hvernig Kolbeinn hleypur á morgun heldur einnig hversu stillt veðrið verður.

Í 100 metra hlaupi kvenna keppa meðal annars Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Íslandsmethafi, og hin hollenska Naomi Sedney. Hún er 28 ára gömul og með það á ferilskránni að hafa meðal annars orðið Evrópumeistari 2016 með sveit Hollands í 4x100 metra boðhlaupi.

Sedney hefur búið á Íslandi síðustu ár og er kærasta Ívars Arnar Jónssonar, knattspyrnumanns í HK. Hún hefur keppt á nokkrum mótum hérlendis og safnar nú stigum fyrir FH í bikarkeppninni.

FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson verður einni gá ferðinni og freistar þess að ógna enn frekar Íslandsmeti Jóns Arnars Magnússonar í langstökki – eftir að hafa verið átta sentímetrum frá því fyrr í sumar.

Guðni Valur Guðnason keppir fyrir ÍR í kúluvarpi, rétt áður en hann heldur af stað á HM í Búdapest til að keppa í kringlukasti.

Tímaseðil, úrslit og keppendalista má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×