Innlent

Hæsti­réttur tekur djamm­bannið ekki til um­fjöllunar

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Þórólfur Guðnason vitnaði í málinu og sagði aðgerðirnar hafa tekið mið af aðgerðum í öðrum löndum.
Þórólfur Guðnason vitnaði í málinu og sagði aðgerðirnar hafa tekið mið af aðgerðum í öðrum löndum. Vísir/Vilhelm

Málskotsbeiðni eiganda skemmtistaðarins The English Pub í máli gegn íslenska ríkinu hefur verið hafnað. Landsréttur úrskurðaði að djammbannið hafi verið löglegt.

Málið snerist um þrjár lokanir sóttvarnaryfirvalda á skemmtistöðum í COVID-19 faraldrinum. Frá 24. mars til 24. maí árið 2020, frá 18. til 27. september sama ár og frá 5. október árið 2020 til 8. febrúar árið 2021. Kröfðust eigendur The English Pub, félagið Austurátt ehf, viðurkenningar á skaðabótaábyrgð ríkisins vegna fjártjóns af völdum lokananna.

Þann 14. janúar árið 2022 sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur ríkið af kröfunum. Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnarlæknir, vitnaði í málinu og sagði að viðbrögð íslenskra heilbrigðisyfirvalda hefðu tekið mið af viðbrögðum í öðrum löndum. Fjöldi smita hefði tengst skemmtistöðum.

Í dóminum, sem stóð óraskaður í Landsrétti 12. maí á þessu ári, segir að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki gengið lengra en talið var nauðsynlegt. Þá hafi ríkið stofnað til ýmissa úrræða fyrir fyrirtæki sem hafi þurft að loka dyrum sínum. Auk þess hafi Austurátt ekki tekist að sýna fram á umfang taps vegna lokananna.

Málið hafi ekki verulegt gildi

Í málskotsbeiðninni segja eigendurnir að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi enda snúi það að heimild stjórnvalda til að skerða stjórnarskrárvernduð réttindi með stjórnvaldsfyrirmælum. Málið hafi fordæmisgildi um skýringu sóttvarnarlaga og lögmæti COVID-19 aðgerða. Þá er sagt að dómur Landsréttar sé rangur að efni þar sem ekki sé gerður greinarmunur á aðgerðum á mismunandi tímum.

Hæstiréttur hafnaði beiðninni og sagði að virtum gögnum málsins væri hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni eigendanna. Þá verði ekki séð að dómur Landsréttar sé rangur efnislega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×