Erlent

For­setinn endur­kjörinn með 87 prósent at­kvæða

Atli Ísleifsson skrifar
Shavkat Mirziyoyev hefur gegnt embætti forseta Úsbekistans frá árinu 2016.
Shavkat Mirziyoyev hefur gegnt embætti forseta Úsbekistans frá árinu 2016. AP

Shavkat Mirziyoyev hefur verið endurkjörinn sem forseti Mið-Asíuríkisins Úsbekistans. Samkvæmt tölum frá kjörstjórn hlaut forsetinn 87,1 prósent atkvæða í kosningunum sem fram fóru í gær og mun hann því sitja sitt þriðja kjörtímabil.

Boðað var skyndilega til kosninga í landinu eftir að breytingar á stjórnarskránni voru samþykktar á dögunum. Hinn 65 ára Mirziyoyev mun því að óbreyttu sitja á forsetastóli til ársins 2030.

Fjórir voru í framboði í kosningunum, Mirziyoyev og þrír fremur óþekktir frambjóðendur. Kosningaeftirlitsmenn á vegum ÖSE hafa bent á að þetta sé augljóslega ein birtingarmynd mjög veikrar stjórnarandstöðu í landinu.

Mirziyoyev er menntaður verkfræðingur og hefur lýst sjálfum sér sem umbótasinna sem vinni að því að skapa „Nýtt Úsbekistan“. Í kosningabaráttunni lagði hann mesta áherslu á efnahags- og menntamál, auk þess að hann sagðist vilja vinna að fjölgun ferðamanna til landsins og aukningar erlendrar fjárfestingar.

Mirziyoyev boðaði til kosninganna í kjölfar nýsamþykktra stjórnarskrárbreytinga sem tryggja að forseti geti setið tvö kjörtímabil. Hann gæti því í raun nú gegnt embætti forseta til ársins 2037.

Frjáls félagasamtök segja að staða mannréttindamála hafi batnað nokkuð í Úsbekistan í stjórnartíð Mirziyoyev, samanborið við í stjórnartíð forverans, Islam Karimovs.

Mirziyoyev gegndi á sínum tíma embætti forsætisráðherra í stjórnartíð Karimovs, en hefur eftir að hann tók við forsetaembættinu ógilt einhver þau kúgunarlög sem komið var á í stjórnartíð Karimovs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×