Sport

Sex­tán ára undra­barn stelur senunni á Wimbledon

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mirra Andreeva er að skrá sig í sögubækurnar.
Mirra Andreeva er að skrá sig í sögubækurnar. PA-EFE/NEIL HALL

Hin 16 ára gamla Mirra Aleksandrovna Andreeva er komin í fjórðu umferð Wimbledon-mótsins í tennis. Hún er yngsta konan í sögunni til að komast svo langt á þessu fornfræga móti.

Andreeva kemur frá Rússlandi en mikið hefur verið rætt hvort Rússar og Hvít-Rússar megi taka þátt á mótinu eftir innrás Rússa í Úkraínu á síðasta ári. Ákveðið var að leyfa þeim að keppa og nú hefur rússneskt undrabarn stolið fyrirsögnunum.

Fyrst vakti Andreeva athygli þegar hún komst í 3. umferð Opna franska meistaramótsins í tennis fyrr í sumar en nú hefur hún bætt um betur og er komin alla leið í 16 manna úrslit á Wimbledon.

Til að komast í 4. umferð þurfti hún að leggja samlanda sinn, Anastasiu Sergeyevna Potapovu, í 3. umferð. Hin 22 ára gamla Potapova var ekki mikil fyrirstaða en Andreeva vann fyrsta sett 6-2 og annað sett 7-5. Endist leikurinn í rúmlega 90 mínútur eða svo.

Það sem vekur sérstaka athygli er að Andreeva hafði aldrei keppt á grasi áður en hún mætti í undankeppni Wimbledon-mótsins í síðustu viku.

Hvað myndi Federer gera?

Undrabarnið segist mikill aðdáandi goðsagnarinnar Roger Federer. Segist hún stundum spyrja sig „Hvað myndi Federer gera?“

„Hann var alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér þótti sérstaklega mikið til hans koma þegar hann vann Roland Garros-mótið árið 2022 eftir meiðslin sem hann hafði verið að glíma við,“ sagði Andreeva um hinn 41 árs gamla Federer en hann lagði spaðann á hilluna á síðasta ári.

Mirra Aleksandrovna Andreeva mætir hinni 28 ára gömlu Madison Keys frá Bandaríkjunum í 16 manna úrslitum Wimbledon. Hún er sem stendur í 18. sæti heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×