Handbolti

Allan samdi til tveggja ára við Val

Sindri Sverrisson skrifar
Allan Norðberg hefur kvatt Akureyri og spilar á Hlíðarenda næstu tvö árin.
Allan Norðberg hefur kvatt Akureyri og spilar á Hlíðarenda næstu tvö árin. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Valsmenn hafa nú tilkynnt um komu færeyska landsliðsmannsins Allans Norðberg en hann kemur til félagsins eftir að hafa gegn stóru hlutverki í liði KA á liðnum árum.

Allan skrifaði undir samning til tveggja ára við deildarmeistara Vals en þessi örvhenti hornamaður hefur spilað hér á landi frá árinu 2018, þegar hann kom til KA frá Færeyjum.

Allan, sem er 29 ára gamall, hefur auk þess að leika í hægra horninu hjá KA leyst stöðu skyttu hjá liðinu þegar þess hefur þurft.

Hann var hluti af færeyska landsliðinu sem tryggði sér sæti á stórmóti í fyrsta sinn, þegar liðið vann sér inn farseðilinn á EM sem fram fer í Þýskalandi í janúar.

Ekki hefur enn verið gefið út fyrir hvaða þjálfara Allan mun spila hjá Val en ljóst er að Snorri Steinn Guðjónsson er að hætta með liðið til að taka við íslenska landsliðinu. Útlit er fyrir að aðstoðarmaður Snorra síðustu ár, hinn margreyndi Valsari Óskar Bjarni Óskarsson, taki við sem aðalþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×