Erlent

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: „Það er verið að slátra þeim“

Yfirmenn úkraínska hersins við Bakhmut segja bardaga þar hafa farið Úkraínumönnum í vil. Formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna lýsti átökunum nýverið sem „slátrun“ á Rússum en úkraínskir hermenn segja varnir bæjarins þó hafa verið verulega kostnaðarsamar.

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn á víglínunni nærri Bakhmut. Getty/Diego Herrera Carcedo

Yfirmenn úkraínska hersins við Bakhmut segja bardaga þar hafa farið Úkraínumönnum í vil. Formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna lýsti átökunum nýverið sem „slátrun“ á Rússum en úkraínskir hermenn segja varnir bæjarins þó hafa verið verulega kostnaðarsamar.

Víglínurnar í Úkraínu hafa lítið breyst á undanförnum vikum. Rússar hafa víða reynt að sækja fram með takmörkuðum árangri. Meðal þeirra bæja sem Rússar hafa lagt sérstaka áherslu á að ná haldi á er Bakhmut í Dónetskhéraði en þeim bæ hafa hermenn og málaliðar Rússar reynt að ná frá því í sumar.

Úkraínumenn hafa sömuleiðis lagt mikið kapp á að halda bænum, þrátt fyrir að bakhjarlar Úkraínu hafi lagt til undanhald til nýrra varnarlína vestur af Bakhmut sem séu betur staðsettar og auðveldara að verja. Rússar eru ekki langt frá því að umkringja bæinn en hefur orðið lítið ágengt síðustu daga og vikur.

Með því að halda áfram að verja Bakhmut hafa Úkraínumenn viljað nota bæinn til að þvinga Rússa til að sækja fram gegn varnarlínum sínum. Þannig hafa þeir þvingað Rússa til að sækja fram undir sprengju- og kúluregni og yfir jarðsprengjusvæði.

Úkraínumenn vilja líka ekki veita Rússum þann táknræna sigur sem fælist í hernámi Bakhmut.

„Rússar hafa ekki náð markmiðum sínum“

Mark Milley, formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, sagði á miðvikudaginn á fundi hernaðarmálanefndar Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að hann teldi Rússa eiga í miklum vandræðum. Þeir ættu í vandræðum með birgðir, þjálfun, aga og margt annað

Hann sagði einnig að Rússar gerðu árásir með illa þjálfuðum hermönnum beint gegn vörnum Úkraínumanna.

„Þeir eru í grunninn að hlaupa beint á móti vélbyssum og það er verið að slátra þeim,“ sagði Milley. Hann sagði einnig að úkraínskir hermenn væru að verjast vel og að þeir hefðu valdið miklu mannfalli hjá Rússum.

„Síðustu tuttugu, tuttugu og einn, daga hafa Rússar ekki náð nokkrum árangri í og við Bakhmut,“ sagði Milley. Hann sagði þetta í raun eiga við alla víglínuna í austurhluta Úkraínu.

„Úkraínumenn hafa varist merkilega vel og Rússar hafa ekki náð markmiðum sínum.“

Sérfræðingar sem vakta átökin segja Rússa hafa sótt lítillega fram í Bakhmut í þessari viku. Herforingjaráð Úkraínu staðfesti það í vikunni.

Milley sagði þar að auki að talið væri að málaliðahópurinn Wagner Group væri með um sex þúsund málaliða við Bakhmut og þar að auki um tuttugu til þrjátíu þúsund nýja málaliða sem flestir væru fangar sem ráðnir hefðu verið í skiptum fyrir frelsi eftir sex mánaða þjónustu.

Frá hersjúkrahúsi í Dónetskhéraði.Getty/Diego Herrera Carcedo

Farið að hægja á Rússum

Blaðamaður New York Times fékk nýverið að heimsækja stjórnstöð Úkraínumanna nærri Bakhmut. Þar ræddi hún við hersveitar sem á ensku kallast Adam Tactical Group og er sögð ein skilvirkasta hersveit Úkraínu. Meðlimir hennar mættu til Bakhmut fyrir um sex vikum síðan og eru sannfærðir um að þeir hafi stöðvað framsókn Rússa við bæinn.

„Óvinurinn er búinn með allt sitt varalið,“ sagði ofurstinn Yevhen Mezhevikin við NYT. Hann sagði að dregið hefði úr árásum Rússa og að búið væri að koma í veg fyrir að Rússar gætu umkringt Bakhmut.

„Þeir gátu sótt fram úr öllum áttum í tuttugu, þrjátíu og jafnvel fjörutíu manna hópum en það hefur dregið úr því.“

Mezhevikin sagðist fullviss um að Úkraínumenn gætu haldið aftur af hersveitum Rússa til lengri tíma. Hann sagðist einnig telja að vörn Bakhmut gæti reynst einn af vendipunktum stríðsins gegn Rússum og hjálpað Úkraínumönnum að ná þungu höggi á Rússa.

Úkraínumenn eru að þjálfa nýjar hersveitir, sem sumar notast við vestræna skriðdreka, bryndreka auk vestrænna stórskotaliðsvopna og annarra hergagna. Búist er við því að þessar hersveitir verði notaðar til árása gegn Rússum á næstu vikum og mánuðum.

„Við höldum óvininum hér í smá stund í viðbót og leyfum þeim [nýju hersveitunum] að koma og reka þá aftur,“ sagði Mezhevikin.

Lýsa mjög erfiðum bardögum

Óbreyttir hermenn sem ræddu við NYT og hafa tjáð sig um orrustuna um Bakhmut segja Rússa reyna að sækja fram í gegnum bæinn, þar sem hús skýla þeim frá stórskotaliði Úkraínumanna. Rússar noti loft- og stórskotaliðsárásir til að rústa húsum Bakhmut sem úkraínskir hermenn hafi haldið til í og Úkraínumenn hafi orðið fyrir miklu mannfalli.

Mannfall hefur verið mikið meðal úkraínskra hermanna við Bakhmut. Það er þó talið mun hærra hjá Rússum.AP/Evgeniy Maloletka

Hermennirnir lýsa gífurlega erfiðum aðstæðum þar sem Rússar reyni sífellt að sækja fram. Fregnir hafa áður borist af því að Rússar sendi fanga fram í bylgjum gegn varnarlínum Úkraínumanna. Svo þegar úkraínskir hermenn eru þreyttir og skotfæralausir séu vanir og betur þjálfaðir hermenn sendir fram.

Sjá einnig: Mikilvægar vikur í vændum í Úkraínu

Einn hermaður, yfirmaður hersveitar í norðurhluta Bakhmut sagðist efast um gildi þess að verja Bakhmut því vörnin hefði kostað marga af hans bestu hermönnum lífið. Hann tók þó undir það að dregið hefði úr krafti Rússa við Bakhmut.

„Nú hafa þeir verið stöðvaðir,“ sagði Serhii Filimonov. „Við erum með sterkar línur. Nú þurfum við sterka gagnsókn.“

Kveðja 147 þúsund í herinn

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skrifaði í gær undir tilskipun um að 147 þúsund rússneskir menn yrðu kvaddir í herinn milli 1. apríl og júlí. Rússar hafa um árabil hvatt frá 120 til 150 þúsund menn í herinn tvisvar sinnum á ári og á hver þeirra að sinna herþjónustu í eitt ár.

Samkvæmt rússneskum lögum mega þessir kvaðmenn þó ekki taka þátt í aðgerðum hersins utan landamæra Rússlands, án þess að stríðsyfirlýsing liggi fyrir.

Pútín hefur aldrei lýst yfir formlegu stríði við Úkraínu en hann hefur þó lýst yfir ólöglegri innlimun á fjórum héruðum Úkraínu, þar sem bardagar eiga sér nú stað. Samkvæmt rússneskum lögum eru þessi héruð Rússland.

Kvaðmennirnir munu þó væntanlega þurfa einhverja þjálfun og því er ólíklegt að þeir muni sjást á víglínunum í Úkraínu á næstu mánuðum, eigi þeir að gera eitthvað gagn.

Rússar hafa enn ekki farið í aðra umfangsmikla herkvaðningu, eins og gert var í fyrra. 

Fyrir áramót sögðu ráðamenn í Úkraínu að Pútín stefni á aðra umfangsmikla herkvaðningu til að fylla upp í raðir sínar. Ekkert varð þó af þeirri herkvaðningu, þó enn sé reglulega verið að kveðja rússneska menn í herinn.

Kemur brátt að Úkraínumönnum að sækja fram

Sérfræðingar hafa um nokkuð skeið sagt Úkraínumenn hyggja á gagnárásir þegar vorið nálgast. Á meðan þeir hafa verið að byggja upp nýjar hersveitir hafa Rússar gert umfangsmiklar árásir frá því janúar. Rússar hafa sömuleiðis verið að vinna að uppbyggingu nýrra hersveita þar sem ráðamenn í báðum löndum eru að undirbúa sig fyrir langvarandi átök.

Ráðamenn í Úkraínu hafa heitið því að reka Rússa á brott en til þess þurfa þeir að gera árásir á Rússa.

Fari Úkraínumenn í umfangsmiklar gagnárásir er komið að þeim að sækja fram yfir opna akra í átt að skotgröfum Rússa og yfir jarðsprengjusvæði. Bandaríkjamenn og aðrir bakhjarlar Úkraínu hafa reynt að undirbúa Úkraínumenn fyrir vorið og þá meðal annars með því að útvega þeim skrið- og bryndreka útbúna til að komast í gegnum jarðsprengjusvæði.

Meðal þeirra sem hafa sent slík hergögn eru Finnar.

Bandaríkjamenn hafa einnig verið að þjálfa Úkraínumenn í því að komast hjá skotgrafahernaði. Sú þjálfun sem hófst í síðasta lagi í desember á að hjálpa Úkraínumönnum við skipulag umfangsmikilla sóknaraðgerða þar sem þeir reyna að brjóta sér leið í gegnum varnir Rússa og nýta mikinn hraða til að stökkva Rússum á flótta.

Þessari þjálfun mun bráðum ljúka en Bandaríkjamenn tilkynntu á fimmtudaginn að rúmlega fjögur þúsund hermenn í tveimur stórfylkjum (e. Brigade) væru að ljúka þjálfuninni. Önnur herdeildin er búin Bradley bryndrekum og hin notast við farartæki sem kallast Stryker og býður upp á sérstaklega mikinn hraða.

Þessir hermenn eru sagðir vera á leið til Úkraínu á næstunni.

Um 1.200 hermenn til viðbótar munu áfram vera í þjálfun í Þýskalandi. Allt í allt munu bakhjarlar Úkraínu vera að þjálfa ellefu þúsund hermenn í 26 löndum.

Sjá einnig: Á leið aftur til Úkraínu eftir þjálfun í Bretlandi

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði þó um síðustu helgi að Úkraínumenn skorti enn vopn og hergögn til að hefja umfangsmiklar gagnárásir gegn Rússum. Hann sagði ástandið í austurhluta Úkraínu vera erfitt en bíða þyrfti eftir meiri skotfærum , skriðdrekum og stórskotaliðsvopnum.

Selenskí og aðrir ráðamenn í Úkraínu hafa kvartað yfir hægagangi með vopna- og hergagnasendingar sem bakhjarlar Úkraínu hafa lofað að senda.

Þrátt fyrir það hafa úkraínskir herforingjar gefið í skyn að sókn Úkraínumanna sé í vændum.

Í frétt BBC um ummæli Selenskí og mögulega sókn Úkraínumanna segir að greinendur telji mögulegt að Úkraínumenn vilji halda Rússum á tánum og neyða þá til að dreifa hermönnum sínum til að verja alla víglínuna í Úkraínu.

Aðrir telja von á gagnárásum á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Tyrkland leggur blessun sína yfir umsókn Finnlands

Finnland og Svíþjóð óskuðu eftir því að ganga inn í Atlantshafsbandalagið, NATO, á síðasta ári í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Umsóknin hefur strandað á Tyrklandi en nú hefur tyrkneska þingið samþykkt umsóknina. Öll aðildarríki bandalagsins hafa því nú samþykkt inngöngu Finnlands.

Gögnum um tölvuárásir Rússa lekið til fjölmiðla

Rússneska netöryggisfyrirtækið Vulkan hefur hjálpað herafla og leyniþjónustum Rússlands náið við netárásir og gagnaöflun. Auk þess hafa starfsmenn fyrirtækisins þjálfað starfsmenn leyniþjónusta Rússlands og tekið þátt í að dreifa falsfregnum og ýta undir upplýsingaóreiðu.

Myndband af úkraínskum „nasistum“ tekið upp á yfirráðasvæði Rússa

Utanríkisráðuneyti Rússlands birti í gær myndband sem sagt var sýna úkraínska hermenn áreita konu og barn og skjóta á þau, fyrir að tala rússnesku. Myndbandið átti að vera til marks um að úkraínskir hermenn væru nasistar en ráðuneytið fjarlægði það eftir að í ljós kom að það var tekið upp á yfirráðasvæði Rússa í austurhluta Úkraínu.






×