Körfubolti

Mikill fögnuður þegar Thelma Dís fékk gleðifréttir í flugvélinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 325 þrista á háskólaferli sínum þar af 107 á lokaárinu.
Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 325 þrista á háskólaferli sínum þar af 107 á lokaárinu. Instagram/@ballstatewbb

Thelma Dís Ágústsdóttir mun taka þátt í þriggja stiga skotkeppninni á Final Four helgi bandaríska háskólaboltans sem fer fram í Houston í Texas í ár.

Þetta er gríðarlegur heiður fyrir íslensku körfuboltakonuna úr Keflavík sem hefur raðað niður þriggja stiga skotum allt tímabilið með Ball State skólanum.

Thelma Dís fékk fréttirnar ásamt liðsfélögum sínum í Ball State á mjög sérstökum tíma og á mjög sérstökum stað.

Ball State hafði tapað í úrslitakeppninni og voru á heimleið. Þetta var síðasti leikur Thelmu með skólanum eftir að hafa spilað þar í fimm tímabil.

Það er hins vegar óhætt að segja að það hafi lifnað yfir liðinu þegar þjálfarinn las upp úr tölvupósti í símanum sínum.

Þar sagði hann frá stóru fréttunum að Thelma yrði fulltrúi Ball State (og Íslands) á Final Four í ár.

„Við vorum inni í flugvél, alveg að fara í loftið, á leiðinni heim þegar hann tilkynnti mér og öllu liðinu sem var mjög skemmtilegt augnablik. Keppnin er á fimmtudaginn í næstu viku [30. mars] þannig að planið er bara að skjóta mikið þangað til. Maður hefur séð svona keppnir í sjónvarpinu áður, í NBA deildinni til dæmi en ég hafði ekki hugmynd um hvað það er mikið varðandi tækni og annað sem maður þarf að hugsa út í,“ segir Thelma Dís í samtali við Vísi um þessa stund.

Liðsfélagar Thelmu Dísar fögnuðu vel fréttunum og hún hefur fengið margar góðar kveðjur síðan enda að eina af átta stelpum sem fá tækifæri til að reyna að vinna skotkeppnina í ár.

Hér fyrir ofan má sjá þessa skemmtilegu stund þegar Brady Sallee þjálfari sagði Thelmu og hinum stelpunum í Ball State fréttirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×