Leik Lokið: Haukar 86 - 92 KR | Ný­liðarnir höfðu betur gegn meisturunum

Ívar Orri Leifsson Schjetne skrifar
Úr leik kvöldsins
Úr leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Nýliðar KR gerður sér lítið fyrir og lögðu ríkjandi Íslandsmeistara Hauka að velli í Bónus deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Ólafssal sex stiga sigur KR, 92-86.

Það stefndi allt í hörku leik hér á Ásvöllum í kvöld þegar Íslandsmeistarar Hauka tóku á móti KR-ingum. Bæði lið komu inn í þennan leik með sigur að baki úr 10. umferð Bónus Deildar kvenna.

Liðin byrjuðu leikinn á því að skiptast á þristum og eftir sex mínútna leik var staðan orðin 13-14 gestunum í vil, en þeir voru þá langt frá því að kalla þetta gott og komust að mestu í sjö stiga forystu fyrir lok fyrsta leikhluta en Sólrún Inga náði að minnka muninn fyrir heimamenn þegar nokkrar sekúndur voru eftir og endaði fyrsti leikhluti 21-25 fyrir KR.

Gestirnir úr Vesturbænum virtust ætla taka yfir seinni leikhluta þegar Molly hitti þrist rétt eftir að leikur hófst á ný, svo tóku heimakonur aðeins í taumana og minnkuðu muninn sem náði upp að tíu stigum á kafla, 40-41 var þá staðan þegar flautað var til hálfleiks.

Heimakonur byrjuðu þriðja leikhluta að krafti og komust í tólf stiga forystu þegar mestu munaði, minnkaði þó aðeins munurinn þegar lengra leið á seinni part leikhutans og endaði sá þriðji 70-62.

Gestirnir áttu þó síðasta höggið og gerðu út af við heimakonur í lok leiks, Haukakonur virtust hálf sprungnar þegar um tvær mínútur voru eftir og sást það með feilsendingu í stöðunni 84-88 þar sem KR vinna boltann og loka leiknum, lokatölur héðan af Ásvöllum enduðu 86-92 og fara Vesturbæingar með öll stigin í pokanum heim.

Atvik leiksins

Engin stök atvik þessa leiks, heldur var hann kaflaskiptur og myndi ég segja það hafa verið þessi rosa kafli í þriðja leikhluta hjá Haukakonum þegar þær skutust frá 1 stigi undir að 12 stigum yfir, en eftir það kom ekki annar svoleiðis kafli hjá þeim.

Stjörnur og skúrkar

Liðsfélagarnir Molly Kaiser og Eve Braslis hreppa stjörnutitilinn í dag, Molly skilaði inn 37 stigum og fimm stoðsendingum, Eve var sömuleiðis með 21 stig og þrjár stoðsendingar, virkilega flott tvíeyki hér á ferð!

Dómararnir

Þeir Sigmundur Már, Bjarni H. og Aron stóðu sig með sóma á flautunni, eitt og eitt atvik sem bekkirnir tveir voru ósáttir með, en burt frá því séð leyfðu þeir leiknum að ganga sinn gang.

Stemning og umgjörð

Stemningin var góð í kvöld í heimili ríkjandi Íslandsmeistaranna, það var fremur fjölmennt í stúkunni en ferðin frá Vesturbæ virðist hafa verið of löng fyrir stuðningsmenn gestanna þar sem þeir reyndust vera fáir í Hafnarfirðinum

Virkilega flott umgjörðin á Ásvöllum, það verður seint tekið af þeim. Kakó í Play pappabollum var stemning!

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira