ÍA - Stjarnan 85-115 | Meistararnir búnir að finna gírinn

Sverrir Mar Smárason skrifar
Ægir Þór Steinarsson og félagar í Stjörnunni virðast í fantaformi eftir landsleikjahléið.
Ægir Þór Steinarsson og félagar í Stjörnunni virðast í fantaformi eftir landsleikjahléið. Vísir/Guðmundur

Skagamenn fengu Stjörnuna í heimsókn í AvAir höllina á Skaganum í 10. umferð í Bónus deild karla í kvöld. Niðurstaðan varð öruggur sigur Stjörnunnar, 105-85, á leið meistaranna að toppbaráttunni.

Skagamenn unnu uppkastið og skoruðu fyrstu körfu leiksins en síðan fór strax að halla undan fæti. Gestirnir úr Garðabæ skoruðu næstu 16 stigin og litu ekki til baka eftir það. Orri Gunnarsson sýndi það strax í byrjun hvers hann er megnugur með því að skora fyrstu 9 stig Stjörnunnar. Skagamönnum til varnar þá var þeirra langbesti leikmaður á tímabilinu, Gojko Zudzum, sem leikur nýliðana hefur mikið snúist um meiddur og gat ekki tekið þátt í leiknum. Samt sem áður gekk liðinu mjög illa að finna taktinn í upphafi. Stjarnan var 17 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 19-36.

Annar leikhluti byrjaði á svipuðum nótum. Stjörnumenn skoruðu fyrstu stigin og þegar um mínúta var liðin tók Óskar Þór, þjálfari ÍA, leikhlé og lét sína menn rækilega heyra í sér. Takturinn kom aldrei hjá ÍA í 2. leikhluta, hvorki sóknarlega né varnarlega. Stjörnumenn fengu mikið af opnum skotum og auðveldum körfum en nýttu það þó vel og skiluðu 63% skotnýtingu í fyrri hálfleik. Staðan 43-67 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Þriðji leikhluti var áframhald af því sem farið hafði fram í fyrri hálfleiknum. Stjörnumenn héldu áfram að hitta úr skotunum sínum og malla fleiri stigum fram úr Skagamönnum sem höfðu engin svör. Staðan eftir þrjá leikhluta 63-93, Stjörnunni í vil.

Þegar leið á fjórða leikhluta fóru bæði lið að rótera bekknum inná og greinilegt að það lokaniðurstaða leiksins myndi ekki breytast. Stjörnumenn yfir á öllum sviðum í dag og aldrei spurning hvort liðið myndi vinna þennan leik. Lokatölur 85-105, Stjörnunni í vil.

Atvik leiksins

Hér langar mig helst að nefna fyrstu þrjár körfur gestanna í leiknum. Orri Gunnarsson skoraði þrjá þrista í röð á innan við mínútu og setti heldur betur tóninn fyrir það sem koma skyldi í leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Seth Leday var með langflest framlagsstig í þessum leik. Skoraði 21 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Orri Gunnarsson var sömuleiðis góður í kvöld. 24 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar.

Í liði ÍA var Dibaji Walker atkvæðamestur með 20-3-2.

Skagamenn þurfa, sérstaklega þegar Gojko Zudzum er frá, að fá töluvert meira frá Josip Barnjak heldur en þeir fengu í kvöld. Sömuleiðis má nefna að liðið þarf að taka mun fleiri fráköst en þeir gerðu og þá kannski helst Walker.

Dómararnir

Dómarar kvöldsins komust mjög vel frá verkefninu. Meira að segja lítið kvartað í stúkunni.

Umgjörð og stemning

Skagamenn halda áfram að bjóða uppá góða umgjörð í nýja húsinu. Stemningin var mjög fín til að byrja með en í fyrsta skipti á tímabilinu dvínaði stemningin hjá heimamönnum á Skaganum þegar leið á leikinn. Vonandi gefa þeir aftur í á nýju ári.

Viðtöl

Óskar Þór: Álag, þreyta eða jólastress?

Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari ÍA, var mjög ósáttur með sína menn eftir leikinn, hann vissi að leikurinn yrði erfiður en bjóst ekki við því að hann yrði eins erfiður og raun bar vitni.

„Nei ekki svona. Við vissum að Gojko væri ekki með, misstum hann út í vikunni. Það er eitthvað tengt hné. En ég bjóst við betri frammistöðu frá byrjunarliðinu okkar heldur en þetta,“ sagði Óskar Þór.

Skagaliðið var ólíkt sjálfu sér í kvöld. Það sem við höfum séð hingað til er að þeir láta öll lið hafa fyrir því að vinna sig og séu lengi inni í leikjum sem tapast, sérstaklega á heimavelli.

„Ég veit ekki hvort þetta sé álag eða bara þreyta. Mögulega jólastress en okkar menn mættu bara ekki í leikinn í dag. Við töluðum um að Orri Gunnarsson er með betri skyttum á landinu en við gefum honum þrjá opna þrista í byrjun leiks. Það segir bara svolítið í hvað stefndi“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira