Upp­gjörið: Njarðvík-Valur 94-90| Frá­bær endur­komu sigur skilar Njarð­vík toppsætinu

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Brittany Dinkins var frábær í kvöld.
Brittany Dinkins var frábær í kvöld. Anton Brink/Vísir

Njarðvík tók á móti Val í toppslag elleftu umferðar bónus deild kvenna í kvöld. Leikurinn fór fram í IceMar höllinni í Njarðvík og var hin mesta skemmtun.

Valur náði mest 18 stiga forskoti en Njarðvík gerði frábærlega að koma til baka og sækja frábæran endurkomu sigur 94-90 og tylltu sér á topp deildarinnar með þessum sigri.

Leikurinn fór fjörlega af stað. Njarðvík tók uppkastið og átti fyrstu stig leiksins og komust í 6-2 áður en Valsliðið rankaði svo heldur betur við sér.

Valsliðið fann einhvern gír og náði frábæru 12-0 áhlaupi og náðu að slíta sig svolítið frá Njarðvíkingum. Á meðan allt virtist ganga upp hjá Val gekk ekkert upp hjá Njarðvík og staðan eftir fyrsta leikhluta 14-26 fyrir Val.

Annar leikhluti byrjaði vel hjá Valsliðinu sem lék sér að liði Njarðvíkur á kafla og leit út fyrir að ætla hlaupa með leikinn. Allt virtist ganga upp hjá Val á meðan ekkert gekk hjá Njarðvík og náði Valur mest 18 stiga forskoti.

Njarðvík rankaði við sér undir lok leikhlutans og fóru að spila líkari liðinu sem maður á þekkja. Þær náðu stoppum og söxuðu niður forskot Vals í níu stig fyrir hálfleik með flautuþrist frá Huldu Maríu Agnarsdótur 40-49.

Það voru mun meiri jafnræði með liðunum þegar þau komu úr hálfleiknum. Liðin skiptust á áhlaupum og í hvert sinn sem Njarðvík nálgaðist Val kom áhlaup frá gestunum sem kom þeim aðeins frá aftur.

Njarðvík náði að minnka muninn niður í tvö stig þegar rétt rúm mínúta var eftir af þriðja leikhluta en Valur átti flottan lokasprett og skoraði síðustu sex stig leikhlutans til að fara með átta stiga forskot 62-70 í fjórða leikhluta.

Það var mikil barátta í fjórða leikhluta en Njarðvík saxaði vel á forskot Vals og var Brittany Dinkins á eldi fyrir heimakonur. Njarðvík náði forystunni þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir af leiknum og náðu að sjá út sigurinn. Stórkostlegur endurkomu sigur hjá Njarðvík 94-90.

Atvik leiksins

Dani Rodriguez stelur boltanum seint í öðum leikhluta og keyrir á körfuna fyrir auðveld stig fyrir Njarðvík. Valur hafði verið 18 stigum yfir og þarna fæddist einhver trú um að það væri hægt að fá eitthvað úr þessum leik fyrir Njarðvík.

Einnig hægt að nefna flautuþristinn frá Huldu Maríu Agnarsdóttur sem lokaði fyrri hálfleiknum og minnkaði þetta niður í níu stig.

Stjörnur og skúrkar



Brittany Dinkins var frábær fyrir Njarðvík í kvöld. Hún var einni stoðsendingu frá því að vera með þrefalda tvennu en hún var með 35 stig, tíu fráköst og níu stoðsendingar.

Hjá Val var Ásta Júlía Grímsdóttir erfið viðureignar undir körfunni. Hún endaði með 20 stig og tók auk þess 11 fráköst.

Dómararnir

Dómararnir heilt yfir voru bara nokkuð fínir. Ekki frábærir en ekkert hræðilegir heldur.

Stemingin og umgjörð

Það verður seint tekið af Njarðvíkingum að þeir leggja svo sannarlega metnaðinn í starfið. Umgjörð og stemning algjörlega upp á 10,5!

Viðtöl

Einar Árni Jóhannsson þjáflari NjarðvíkurAnton Brink/Vísir

„Ótrúleg seigla að halda samt áfram og gefast aldrei upp“

„Gríðarlega ánægður með stelpurnar og viljan sem að þær sýndu í seinni hálfleik“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Við vorum í stökustu vandræðum með þær lengst af í fyrri og þær taka níu sóknarfráköst í fyrri hálfleik ef ég man rétt og enda í ellefu, enginn í fjórða“

„Mér fannst það vera svolítill lykill. Þær voru ótrúlega drjúgar að ná í þessar körfur í fyrri hálfleik á sóknarfráköstum og svo voru þær bara að skjóta boltanum gríðarlega vel, þær eru að skjóta 43% ef ég man rétt í þriggja stiga“

„Að vinna Val í þessum gír, ég er bara hrikalega ánægður með það“

Valur leiddi með 18 stigum á kafla en á hvaða tímapunkti fannst Einari Árna endurkoman vera að raungerast?

 „Við vorum ótrúlega svekkt í stöðunni þegar það er átta stiga munur öruggleg eftir þrjá leikhluta. Okkur fannst þetta þá eig að vera einhver tveggja, fjögura stiga leikur“

„Við sögðum snemma í öðrum að skera þetta niður fyrir tíu stigin. Okkur fannst við alltaf vera að ná þeim markmiðum en alltaf kom ein stór karfa frá þeim en ótrúleg seigla samt að halda samt áfram og gefast aldrei upp. Dýrmætur sigur“sagði Einar Árni Jóhannsson.

Jamil Abiad er þjálfari Valskvenna.Vísir/Anton Brink

„Leyfðum einum leikmanni svolítið bara að taka yfir síðustu mínúturnar“

„Auðvitað, það er aldrei gaman að tapa“ sagði Jamil Abiad þjálfari Vals eftir svekkjandi tap í IceMar-höllinni í kvöld.

„Það var enginn vörn í fjórða leikhluta og við fengum á okkur 32 stig og það er bara leikurinn“

Þessi leikur var að einhverjum hluta óþægilega líkur fyrri leik þessara liða í vetur en þá var Valur einnig með góða forystu þegar lítið var eftir en þurftu að horfa á eftir sigrinum renna sér úr greipum.

„Já við gerðum vel lengst af í leiknum og svo bara í lokin þá vantar bara aga í því sem við erum að gera og hvað við höfum verið að gera til þess að vera í leiknum. Við leyfðum einum leikmanni svolítið bara að taka yfir síðustu mínúturnar þarna“

Það mátti heyra á Jamil að hann var ósáttur með varnarleikinn í fjórða leikhluta. 

„Já auðvitað. Það var vörnin en sóknarleikurinn okkar staðnaði líka og svo töpuðum við mikilvægum boltum sem gaf þeim færi á auðveldum stigum. Þær skoruðu 32 stig í fjórða leikhluta svo það er eitthvað sem við verðum að bæta okkur“ sagði Jamil Abiad.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira