Handbolti

Fullyrðir að Stiven sé á leið til Benfica: „Það verður bara að koma í ljós“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stiven skýtur að marki Göppingen í leik kvöldsins.
Stiven skýtur að marki Göppingen í leik kvöldsins. Vísir/Diego

Stiven Tobar Valencia, hornamaður Íslandsmeistara Vals, er á leið til portúgalska félagsins Benfica að yfirstandandi tímabili loknu ef marka má orð handboltasérfræðingsins Arnars Daða Arnarssonar.

Arnar Daði var einn af sérfræðingum Seinni bylgjunnar á leik Vals og Göppingen í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld. Eftir leik sagði hann frá því að samkvæmt því sem hann hafi heyrt sé nýjasta stjarna íslenska landsliðsins á leið til Benfica í sumar.

Þá sagði Arnar Daði einnig frá þessu á Twitter-síðu sinni á meðan leik stóð. Stiven hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Valsmönnum í Evrópudeildinni í vetur, sem og í Olís-deildinni hér heima. Þá átti hann líka góða innkomu í íslenska landsliðið í leik gegn Tékkum í undankeppni EM 2024 fyrr í þessum mánuði.

Eftir leik Vals gegn Göppingen í Evrópudeildinni fyrr í kvöld var Stiven spurður út í þessi mál í viðtali við Andra Má Eggertsson. Stiven var stuttorður og passaði sig að gefa ekkert upp.

„Það verður bara að koma í ljós,“ sagði hornamaðurinn einfaldlega.

Benfica er þó ekki eina liðið sem Stiven hefur verið orðaður við að undanförnu, en ungverska liðið Telekom Veszprém er sagt hafa áhuga á leikmanninum. Stiven staðfesti það svo sjálfur í viðtali að sá áhugi væri til staðar, en hjá Veszprém yrði hann í samkeppni um hornamannsstöðuna við íslenska landsliðsmanninn Bjarka Má Elísson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×