Sport

Ein besta skíðakona sögunnar skiptir karli út fyrir konu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Mikaela Shiffrin fagnar sigri á heimsbikarmóti í vetur.
 Mikaela Shiffrin fagnar sigri á heimsbikarmóti í vetur. Getty/Jonas Ericsson

Bandaríska alpaskíðakonan Mikaela Shiffrin er búin að finna sér nýjan þjálfara.

Shiffrin sló á dögunum metið yfir flesta heimsbikarsigra þegar hún vann sitt 87. mót og tók þar með metið af Svíanum Ingemar Stenmark.

Þrátt fyrir velgengi þá vildi þessi 28 ára bandaríska stórstjarna fá inn nýjan þjálfara.

Leiðir Shiffrin og gamla þjálfarans Mike Day skildu síðan á miðju heimsmeistaramóti á dögunum en hún hafði þá tilkynnt honum um það að hann yrði ekki áfram eftir tímabilið. Day ákvað að hætta strax og það þótt að Shiffrin ætti eftir að keppa í tveimur greinum á heimsmeistaramótinu.

Shiffrin skiptir nú karli út fyrir konu því nýi þjálfari hennar er Karin Harjo.

Harjo er mjög reynd enda á hún 23 ár að baki sem þjálfari og nú síðast gerði hún frábæra hluti með kanadíska skíðalandsliðið.

Tveir skjólstæðingar Harjo í kanadíska landsliðinu höfðu meðal annars unnið Shiffrin á þessu tímabili. Laurence St. Germain kom mjög á óvart með því að vinna hana í sviginu á HM og Valerie Grenier vann sitt fyrsta heimsbikarsgull á ferlinum þegar hún var var fljótari en Shiffrin í stórsvigi fyrr í vetur.

Shiffrin og Harjo þekkjast vel frá fyrri tíð eftir að Harjo vann áður sem aðstoðarþjálfari hjá bandaríska skíðalandsliðinu.

Harjo fékk tækifæri til að verða aðalþjálfari kanadíska alpagreinalandsliðsins á síðasta ári og varð þá fyrsta konan til að gegna því starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×